KR-ingurinn Hildur Sigurðardóttir sækir að körfu Keflavíkur í leiknum í gærkvöld en Birna Valgarðsdóttir er til varnar. KR styrkti stöðu sína í toppbaráttu 1. deildar með góðum sigri.
KR-ingurinn Hildur Sigurðardóttir sækir að körfu Keflavíkur í leiknum í gærkvöld en Birna Valgarðsdóttir er til varnar. KR styrkti stöðu sína í toppbaráttu 1. deildar með góðum sigri.
ÞEGAR KR-stúlkur, nýbakaðir bikarmeistarar, hertu tökin í vörninni í þriðja leikhluta fór allt í handaskolum hjá Keflvíkingum þegar þeir sóttu Vesturbæinga heim í gærkvöldi. Eftir 11 stig í röð í fjórða leikhluta varð bilið of mikið til að brúa og KR vann 76:62. Sigurinn var Vesturbæingum dýrmætur og hafa þeir nú fjögurra stiga forskot á næstu lið, Keflavík og ÍS, en Keflavík á tvo leiki til góða og ÍS þrjá, þannig að enn heldur spennan áfram.

Vesturbæingarnir Guðbjörg Norðfjörð og Gréta María Grétarsdóttir fóru mikinn í upphafi og lögðu grunn að 15:6 forystu KR eftir 4 mínútur. Þá tók Birna Valgarðsdóttir við sér með níu næstu stig og nokkru síðar komst Keflavík yfir í fyrsta sinn 16:17. Þá tóku KR-stúlkur aftur við sér og Helga Þorvaldsdóttir fór fyrir þeim þegar þær náðu mest sjö stiga forskoti en gestirnir voru komnir af stað og þegar Rannveig Randversdóttir fór af stað jöfnuðu þær rétt fyrir hálfleik, 40:40.

Baráttan var greinilega farin að taka sinn toll þegar þriðji leikhluti hófst og fyrir vikið áttu varnir allskostar við þreytulegum sóknarleik en Keflavíkurstúlkur náðu engu að síður 48:46 forystu. Þá mátti samt greina að að KR-stúlkur voru betur stemmdar og það seig hægt og bítandi á ógæfuhliðina hjá Keflavík þó að munurinn væri ekki mikill, 55:50 eftir þriðja leikhluta. Í þeim fjórða skildu svo leiðir þegar hvorki gekk né rak hjá gestunum sem hittu sjaldnast körfuna og náðu fáum fráköstum. Hjá þessum liðum er refsað hart og hratt því KR-ingar gengu á lagið - breyttu stöðunni úr 57:55 í 68:55 og það reyndist gestunum of mikið bil að brúa.

Vesturbæingar unnu fyrir þessum sigri þó að sú vinna kæmi seint og þá ekki fyrr en þær tóku varnarleikinn af meiri hörku og baráttu. "Þetta var hörkuleikur því Keflvíkingar komu sterkir til leiks og ætluðu sér að vinna bikarmeistarana en við vorum ekki á því vegna þess að við þurfum að vinna hvern einasta leik til að vinna deildina," sagði Gréta María eftir leikinn ánægð með sigurinn því bikarúrslitaleikurinn síðan á laugardaginn sat aðeins í liðinu. "Það var erfiðara að ná upp stemmningu eftir bikarleikinn. Að vísu byrjuðum við vel og náðu forystu en svo náðu þær að jafna. Við ákváðum þá í hálfleik að vinna þennan leik á vörninni og það tókst, við ætluðum að halda þeim undir 65 stigum. Það er ekki okkar leikur að láta þær skora of mikið því okkar besta er varnarleikur og sóknin kemur í kjölfarið." Ásamt Grétu Maríu var Guðbjörg Norðfjörð drjúg með flest stig KR, 24, þegar hún hitti úr þremur af fjórum þriggja stiga skotum sínum. Carrie Coffman tók flest fráköst, alls 13, en hún spilaði í 20 mínútur. Helga Þorvaldsdóttir átti góða spretti eins og Hildur Sigurðardóttir.

"Við vorum óheppnar og að flýta okkur of mikið á meðan þær hittu úr flestum sínum skotum," sagði Keflvíkingurinn Birna eftir leikinn. "Það eru alltaf kaflaskipti í leikjum við KR - annað lið nær góðu forskoti en hitt vinnur það upp og úrslit ráðast í lokin en það er alltaf leiðinlegt að tapa fyrir KR. Við verðum nú að vinna leikina sem eftir eru því við ætlum að fá heimaleikjarétt í úrslitakeppninni og það er hörkuleikir eftir," bætti Birna við en hún var best Keflvíkinga - stigahæst með 19 stig og tók flest fráköst, 13 alls, en hún lék allar fjörutíu mínúturnar. Rannveig og Kristín Blöndal voru einnig góðar.

Stefán Stefánsson skrifar