NÝJUSTU fréttir benda til þess að verulega þrengi að hag Guggenheim-listasafnsins í New York sem einnig rekur útibú víða um heim.

NÝJUSTU fréttir benda til þess að verulega þrengi að hag Guggenheim-listasafnsins í New York sem einnig rekur útibú víða um heim. Vilja margir kenna núverandi stjórnanda safnsins, Thomas Krens, um og þeirri útþenslustefnu sem hann hefur rekið á síðustu árum. 90 starfsmönnum Guggenheim-safnanna hefur verið sagt upp og þremur væntanlegum sýningum þess frestað um óákveðinn tíma.

Guggenheim-safnið er einkarekin listastofnun eins og títt er um listasöfn í Bandaríkjunum. Í því augnamiði að auka ferðamannastraum, styrki og þar með tekjur safnsins beitti Krens sér fyrir auglýsinga- og markaðsherferðum sem á tíðum þóttu keyra um þverbak. Vilja sumir ganga svo langt að líkja stefnu safnstjórans við aðferðafræði McDonald's-hamborgarakeðjunnar. Sýningar á borð við "List mótorhjólsins" og sýning á fatnaði hönnuðarins Giorgio Armani á síðasta ári voru mjög vel sóttar, en listrænt gildi þeirra var umdeilt, ekki síst eftir að í ljós kom að fatahönnuðurinn heimsfrægi styrkti safnið um 15 milljónir bandaríkjadollara skömmu eftir að opnuð var samnefnd sýning honum til heiðurs.

Guggenheim-safnið neyddist til að loka útibúi sínu í SoHo-hverfi í New York fyrir 2 árum en hefur haft uppi áform um nýja og stórkostlega safnabygginu neðarlega á vesturbakka Manhattan-eyju til viðbótar við auðkennandi byggingu á ofanverðri eyjunni sem hönnuð var af Frank Lloyd Wright fyrir rúmum 30 árum. Hefur arkitektinn Frank O. Gehry lokið við að hanna nýja safnið en mjög óljóst er hvort af framkvæmdum verður.

Í næstu viku stóð til að opna í New York yfirlitssýningu á verkum bandaríska myndlistarmannsins Matthew Barney, sem þekktastur er fyrir Cremaster-kvikmyndir sínar, og síðar á árinu stóðu til sýningar á verkum Kasimir Malevich og Douglas Gordon, en þeim hefur nú öllum verið frestað.

Auk safnsins í New York og nýopnaðs Guggenheim-safns í Las Vegas, hefur Guggenheim rekið til lengri og skemmri tíma útibú í Feneyjum, Berlín, Salzburg og Bilbao á Spáni. Nú er uppi í safninu sýning á brasilískri list, sem fengið hefur heldur slæma dóma hjá gagnrýnendum. Hafa þeir m.a. velt því fyrir sér hvort valið á verkunum tengist á einhvern hátt fyrirætlunum um opnun Guggenheim-safns í Rio de Janeiro.

New York. Morgunblaðið.