ÁKVEÐIÐ hefur verið að efna til matarveislu, "Food Festival" í Kópavogi og Reykjavík dagana 26. febrúar til 3. mars næstkomandi.

ÁKVEÐIÐ hefur verið að efna til matarveislu, "Food Festival" í Kópavogi og Reykjavík dagana 26. febrúar til 3. mars næstkomandi. Tilgangurinn með sælkeraveislunni er að vekja athygli á Íslandi sem framleiðslulandi úrvals matvæla þar sem framleiðslan fer fram í sátt við umhverfið, sjávarútvegur stundaður á sjálfbæran hátt, dýravernd höfð að leiðarljósi, strangt eftirlit er með framleiðsluferlinu og hollusta, hreinleiki og fagmennska er í hávegum höfð. 10 erlendir kokkar koma til landsins til þess að taka þátt í keppni í tengslum við sælkeraveisluna, 6 frá Bandaríkjunum og 4 frá Evrópu.

Stefnt er að því að ferðaþjónustufyrirtæki undir leiðsögn Flugleiða og Ferðamálaráðs kynni þessa daga fyrir áhugasömum ferðamönnum á áfangastöðum félagsins í Ameríku. Veislan verður vel kynnt og vakin athygli á landinu í Ameríku og Evrópu sem sælkera lands sem og veitingastöðum sem verða með á boðstólum sérstaka sælkeramatseðla.

Matvælafyrirtæki sem stunda útflutning á matvælum verða virkjuð og þeim gefið einstakt tækifæri til að koma afurðum sínum á framfæri með þátttöku í fyrirhugaðri matvælasýningu á sama tíma.

Matreiðslukeppni með þátttöku 10 erlendra kokka

Ákveðið hefur verið, til að vekja enn frekar athygli á "Food Festivalinu", að standa fyrir matreiðslukeppni meðal erlendra matreiðslumeistara frá Evrópu.

Keppendur mæta laugardaginn 2 mars að morgni og velja sér hráefni í forrétt og millirétt úr þeim íslensku afurðum sem sýndar verða í verslun Hagkaups í Smáralind. Þeir fá rúma eina klukkustund til að ræða við framleiðendur og hefja síðan keppni í sérstökum eldhúsum sem sett verða upp í Garðinum. Aðgangur að keppninni er opinn almenningi, sem jafnframt getur fylgst með keppendum þar til þeir ljúka keppni, en þá fara dómarar yfir verkefni dagsins og dæma réttina.

Daginn eftir verður sama fyrirkomulag nema þá verður keppt í aðalrétti og eftirrétti.

Keppendur verða tíu, sex frá Bandaríkjunum og fjórir frá Evrópu.