Sigurður Einarsson
Sigurður Einarsson
Hafnarfjarðarbær, segir Sigurður Einarsson, hefur verið í forystu með einkaframkvæmd á þjónustu við íbúana.

FYRIR rúmu ári skipaði bæjarráð Hafnarfjarðar vinnuhóp, sem hafði það meginmarkmið að skilgreina stöðu húsnæðis- og þjónustumála eldri borgara í bænum, að meta þörf á uppbyggingu og skoða með hvaða hætti megi mæta henni. Var hópnum falið að gera tillögur til úrbóta, þar sem nálgast mætti markmiðið, bæði með þekktum leiðum en ekki síst með óhefðbundnum lausnum sem hugsanlega myndu opna nýjar dyr.

Áhersla

Talsverð eftirspurn hefur verið eftir lóðum nálægt miðbæ Hafnarfjarðar bæði af hálfu verktaka sem og eldri borgara sem áhuga hafa á frekari uppbyggingu íbúða fyrir þann aldurshóp í hinum gróna hluta bæjarins.

Mikil eftirspurn var eftir íbúðum á almennum markaði þegar uppbyggingin í Áslandi hófst, en þar var stuðlað að því að mæta þörfum eldri borgara með áherslu á minni eignir í sérbýli, svo sem parhúsum og raðhúsum með litlum lóðum. Almenn gæði fjölbýlishúsa hafa aukist í þessu hverfi þar sem víða eru bílageymslur undir þriggja hæða húsum í tengslum við lyftu. Margir eldri borgarar gera þessar kröfur og því er markhópurinn augljós. Ör þróun atvinnulífs í bænum gerir það að verkum að iðnaðarlóðir nálægt miðbænum henta ekki lengur fyrir iðnað og eru því kjörið tækifæri til íbúðaruppbyggingar.

Eitt af markmiðunum með nýju skipulagi á Völlum er að horfa sérstaklega til þarfa eldri borgara. Alltaf eru einhverjir einstaklingar á biðlista eftir leiguhúsnæði hjá bænum og því þarf að sjálfsögðu að mæta. Stóra þörfin í náinni framtíð er hinsvegar breyttar áherslur fólks þegar það hugar að því að minnka við sig húsnæði, jafnvel strax eftir fimmtugt. Þá er gott aðgengi grundvallaratriði en einnig sækja menn í meira öryggi.

Frekari þróun

Áðurnefndur vinnuhópur skilaði nýlega skýrslu um málið. Haldinn var borgarafundur í húsnæði félagsstarfs aldraðra á Reykjavíkurvegi 50 í maí á sl. ári og mættu þar tæplega 80 manns. Aðalfyrirlesari fundarins var Elli de Haus, forstöðukona hjá Humanitas-samtökunum í Hollandi. Samtökin reka tvær stórar íbúðasamsteypur með fjölbreyttri þjónustu fyrir eldri borgara þar í landi sem vakið hafa mikla athygli. Mjög líflegar umræður urðu á fundinum og fram komu ýmsar óskir um frekari þróun í uppbyggingu íbúðarmála aldraðra.

Í framhaldi af borgarafundinum leitaði vinnuhópurinn álits aðila sem eru tengdir þjónustu við aldraða á ólíkan hátt. Aðstæður í þjóðfélaginu hafa verið að breytast síðustu misseri og er nú t.d gert ráð fyrir að allir búi heima hjá sér eins lengi og kostur er, en fái nauðsynlega þjónustu heima. Öldrunarstofnanir verði þá einungis hjúkrunarstofnanir en ekki viststofnanir. Breytingar eru einnig að verða á eignarhaldi íbúða og er margskonar leigufyrirkomulag og sveigjanlegt eignarfyrirkomulag að ryðja sér til rúms. Þessu þarf að mæta.

Virkt samráð

Það er niðurstaða hópsins að bæjarfélagið þurfi að skapa grundvöll fyrir því að byggðar verði íbúðir með mismunandi eignarformi. Bæjarbúar þurfa að geta valið á milli hefðbundinna eignaríbúða, leiguíbúða og íbúða með búseturétti. Hafnarfjarðarbær hefur verið í forystu með einkaframkvæmd á þjónustu við íbúana og skoða þarf hvernig einkaaðilar geta komið að uppbyggingu og rekstri á þessu sviði. Þegar slíkt samfélag ólíkra forma verður skipulagt er nauðsynlegt að skoða sérstaklega hvaða eignarform á íbúðum fara best saman. Gera þarf ráð fyrir að byggja á Völlum, hinu nýja íbúðarhverfi Hafnfirðinga, nýtt íbúðarsamfélag fyrir eldri borgara, þar sem bæði verður boðið upp á eignar- og leiguíbúðir. Nauðsynlegt er að gera ráð fyrir allt að 120 íbúðum í þessu samfélagi sem byggja má í áföngum. Mikilvægt er að haldið verði áfram á þeirri braut sem vinnuhópurinn hefur unnið eftir þ.e. að virkt samráð sé við félagasamtök aldraðra og aðra hagsmunaaðila um alla þætti uppbyggingar íbúða og félagsþjónustu á þessu sviði. Þetta á einnig við um almenna kynningu meðal bæjarbúa þar sem málefni eldri borgara eru málefni okkar allra.

Höfundur er formaður Vinnuhóps um íbúðarmál aldraðra og skipulags- og umferðarnefndar Hafnarfjarðar. Höfundur stefnir á 2.-4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.