Á UNDANFÖRNUM árum hefur hlutur sveitarfélaga í opinberri stjórnsýslu sífellt farið vaxandi með flutningi verkefna frá ríkisvaldinu. Fyrirsjáanlegt er að sú þróun mun halda áfram enda liggur fyrir pólitísk sátt þar um í stórum dráttum.

Á UNDANFÖRNUM árum hefur hlutur sveitarfélaga í opinberri stjórnsýslu sífellt farið vaxandi með flutningi verkefna frá ríkisvaldinu. Fyrirsjáanlegt er að sú þróun mun halda áfram enda liggur fyrir pólitísk sátt þar um í stórum dráttum. Hér er um jákvæða þróun að ræða, í henni felst valddreifing, ákvarðanir færast nær fólkinu og það öðlast aukin tækifæri til að hafa áhrif á sitt nánasta umhverfi með beinum hætti.

Eftir því sem verkefni sveitarfélaganna verða umfangsmeiri og ábyrgð þeirra stærri, skipta sveitarstjórnarmálin sífellt meira máli fyrir líf fólksins í landinu. Þá er mikilvægt að fólk láti þau sig varða og íhugi vel ólíkar áherslur í stefnumálum þeirra stjórnmálaafla sem leita eftir umboði kjósenda. En þótt stefna framboðanna skipti vissulega miklu er það ekki það eina sem málið snýst um. Menn skipta máli og konur eru líka menn.

Ég hef fylgst með störfum Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur í borgarstjórn Reykjavíkur, átt við hana samstarf og kynnst eðliskostum hennar. Hún kann að hlusta, hugsa og framkvæma. Hún er ósérhlífin, rækir störf sín af alúð og hefur sterka réttlætiskennd. Það eru kostir sem prýða góðan borgarfulltrúa.

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, skrifar: