VIÐRÆÐUR stjórnvalda Íslands og Bandaríkjanna um bókun við varnarsamning þjóðanna eru ekki hafnar, en bókunin rann út í apríl sl.

VIÐRÆÐUR stjórnvalda Íslands og Bandaríkjanna um bókun við varnarsamning þjóðanna eru ekki hafnar, en bókunin rann út í apríl sl. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um að hefja viðræður, en íslensk stjórnvöld geti þó komið að því máli með skömmum fyrirvara.

Þetta kom fram í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Þórunnar Sveinbjarnardóttur (S) á Alþingi í gær. Þórunn benti á að tíu mánuðir væru nú liðnir frá því bókun við varnarsamninginn hefði runnið út og innti ráðherrann eftir svörum um gang mála og samningsmarkmið íslenskra stjórnvalda.

Halldór Ásgrímsson sagði varnarsamstarfið við Bandaríkjamenn ganga mjög vel og að gildistími bókunarinnar við varnarsamninginn hefði engin áhrif á það. Hins vegar væri það skoðun íslenskra stjórnvalda að skynsamlegra væri að miða við að draga úr slíkum bókunum og freista þess fremur að ná lengri samningum um þessi mál milli þjóðanna. Teldu menn ástæðu til breytinga á gildistíma slíks samnings mætti skoða slíkt sérstaklega, en að sínu viti hentaði síður að notast við tímasettar bókanir, eins og gert hefði verið á síðustu árum.

Núverandi viðbúnaður varnarliðsins er lágmarksviðbúnaður

"Það hefur engin ákvörðun verið tekin um að hefja viðræður," sagði ráðherra ennfremur og vísaði til breytinga í utanríkispólitík Bandaríkjanna eftir hryðjuverkin 11. september sl. Þá hefðu stjórnarskipti þar í landi einnig umtalsverð áhrif; komnir væru að málinu nýir erindrekar sem gæfu sér góðan tíma til að kynna sér öll atriði og móta sér afstöðu í framhaldi af því. "Við höfum lýst þeirri afstöðu okkar að við teljum núverandi aðbúnað varnarliðsins hér á landi vera lágmarksviðbúnað. Við viljum ekki að hann sé skertur frekar en orðið er," sagði Halldór ennfremur.