EKKERT var flogið innanlands í gær vegna slæmra veðurskilyrða og ísingar í lofti. Þá felldi SBA-Norðurleið niður áætlunarferðir milli Reykjavíkur og Akureyrar en sunnanstormur var á norðan- og vestanverðu landinu í gær og víða var mikil hálka á vegum.

EKKERT var flogið innanlands í gær vegna slæmra veðurskilyrða og ísingar í lofti. Þá felldi SBA-Norðurleið niður áætlunarferðir milli Reykjavíkur og Akureyrar en sunnanstormur var á norðan- og vestanverðu landinu í gær og víða var mikil hálka á vegum.

Veðurstofan spáir stormi á norðan- og vestanverðu landinu í dag.

Veðurhæðin náði hámarki á vestanverðu landinu seint í fyrrinótt en tók að ganga niður undir morgun um leið og veðurskilin færðust austar. Í Litlu-Ávík á Ströndum og Bergsstöðum í Austur-Húnavatnssýslu mældist meðalvindur 28 m/sek. klukkan 9 í gærmorgun. Skilin færðust á hinn bóginn ekki yfir suðvesturlandið fyrr en síðdegis og því var þar hvasst allan daginn.

Í Ljósavatnsskarði fauk fólksbíll út af veginum og valt á tíunda tímanum í gærmorgun. Ökumaður bílsins var í bílbelti og slapp með minniháttar meiðsl. Að sögn lögreglunnar á Húsavík fuku nokkrir bílar til viðbótar út af veginum. Þeir héldust þó á réttum kili og eignatjón var ekki umtalsvert.

Sigurður Brynjúlfsson, yfirlögregluþjónn á Húsavík, segir að í skarðinu hafi gengið á með miklum vindhviðum á um eins kílómetra löngum kafla í gærmorgun og fram undir hádegi. Lögreglumenn á upphækkuðum Nissan Patrol-jeppa drógu nokkra bíla aftur upp á veginn. Lögreglujeppinn fauk töluvert til meðan á þessu stóð en hélst þó á veginum. Veginum um Ljósavatnsskarð var ekki lokað en lögregla og Vegagerð gáfu út viðvaranir og héldu margir kyrru fyrir á meðan veðrið gekk yfir.

Á Dalvíkurvegi fuku nokkrir bílar út í vegkant en lögreglan á Dalvík hafði hvorki haft spurnir af meiðslum né eignatjóni.