STAFFAN Olsson, handknattleiksmaðurinn kunni frá Svíþjóð, hefur framlengt samning sinn við þýska félagið Kiel um eitt ár, til vorsins 2003.

STAFFAN Olsson, handknattleiksmaðurinn kunni frá Svíþjóð, hefur framlengt samning sinn við þýska félagið Kiel um eitt ár, til vorsins 2003. Olsson verður 38 ára innan skamms en sagði í samtali við þýska netmiðilinn Sport1 í gær að hann væri fyllilega tilbúinn í eitt tímabil í viðbót.

"Ég er í góðri æfingu og er enn nægilega vel á mig kominn til að spila í sterkustu deild heims."

Félagi hans, Magnus Wislander, heldur hins vegar heim á leið að þessu tímabili loknu og Olsson segir að það verði mikill missir. "Við söknum hans allir," sagði "Faxi".

Noka Serdarusic, þjálfari Kiel, lýsti yfir mikilli ánægju með að halda Olsson eitt ár til viðbótar. "Það kom vel fram í Evrópukeppninni hvað hann getur," sagði Serdarusic en Olsson kom Svíum til bjargar í úrslitaleiknum gegn Þjóðverjum á dögunum þegar hann jafnaði nokkrum sekúndum fyrir lok venjulegs leiktíma.