Thomas Kalb frá Þýskalandi mun stjórna flutningi á sinfóníutónleikum kvöldsins.
Thomas Kalb frá Þýskalandi mun stjórna flutningi á sinfóníutónleikum kvöldsins.
Á TÓNLEIKUM Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Háskólabíói í kvöld verða leiknar sinfóníur eftir þrjá af helstu höfundum sinfónískrar tónlistar. Á efnisskránni eru Sinfónía nr. 90 í C-dúr eftir Franz Jósef Haydn, Sinfónía nr. 34 í C-dúr K.

Á TÓNLEIKUM Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Háskólabíói í kvöld verða leiknar sinfóníur eftir þrjá af helstu höfundum sinfónískrar tónlistar. Á efnisskránni eru Sinfónía nr. 90 í C-dúr eftir Franz Jósef Haydn, Sinfónía nr. 34 í C-dúr K. 338 eftir Wolfgang Amadeus Mozart og Sinfónía nr. 9 í C-dúr D. 944 eða Stóra C-dúr sinfónían eftir Franz Schubert. Hljómsveitarstjóri er Thomas Kalb frá Þýskalandi. Í París tóku menn sérstöku ástfóstri við tónlist Haydns á árunum í kringum 1770 og þar eignaðist hann velunnara, d'Ogny greifa. Hann var fjárhagslegur bakhjarl tónlistarfélags sem starfrækti hljómsveit og stóð fyrir reglubundnu tónleikahaldi. Það var fyrir tilstuðlan greifans að Haydn samdi sinfóníurnar nr. 82-92 á árunum 1785-1790 og voru þær ætlaðar til flutnings í París. Sinfónía nr. 90 var samin 1788.

Sinfóníurnar skipa ekki jafn stórt hlutverk í sköpunarverki Mozarts og hjá Haydn. Óperurnar og píanókonsertarnir skiptu hann meira máli og á þeim vettvangi lagði hann meiri áherslu á að þróa tónmál og form. Sinfónían nr. 34 var samin síðsumars árið 1780, rétt áður en Mozart hélt frá heimaborginni Salzburg til að setjast að í Vínarborg. Rannsókn á handritinu sýnir að upphaflega skrifaði Mozart verk í fjórum þáttum, en tók síðar út menúettinn sem komið hafði á eftir upphafsþættinum.

Þótti fulltyrfin

Sinfóníur Schuberts teljast vera tíu þótt ekki hafi hann náð að ljúka þeim öllum. Lengi vel var álitið að stóra C-dúr sinfónían hefði verið samin síðasta árið sem hann lifði, en fræðimenn eru nú á því að hún sé frá árinu 1825. Hljómsveit Musikverein í Vínarborg æfði sinfóníuna skömmu eftir að Schubert lauk við smíði hennar, en fannst hún fulltyrfin svo hætt var við flutninginn. Það var ekki fyrr en Robert Schumann sá handrit að verkinu hjá Ferdinand, bróður Schuberts, snemma árs 1839 að hyllti undir frumflutning. Sinfónían var þannig fyrst leikin á áskriftartónleikum Gewandhaus hljómsveitarinnar í Leipzig í mars 1839, reyndar í styttri útgáfu að ráði Schumanns. Sinfóníunni stjórnaði Felix Mendelssohn, sem hreifst mjög af verkinu og hlaut það afar góðar viðtökur. Schumann skrifaði síðar um sinfóníuna í blað sitt, Nýtt tónlistartímarit, og talaði þá um himneska lengd verksins og líkti því við fjögurra binda skáldsögu.

Thomas Kalb hefur komið fram sem gestastjórnandi víðs vegar um Þýskaland, svo sem við óperuhúsin í Berlín, München, Frankfurt og Hannover, og einnig mætti nefna útvarpshljómsveitirnar í Bæjaralandi og Norður-Þýskalandi. Hann hefur sömuleiðis stjórnað víða erlendis, t.a.m. sinfóníuhljómsveitunum í Jerúsalem, Álaborg og Harrisburg í Bandaríkjunum, sem og virtum hljómsveitum í Frakklandi, Rússlandi, Ítalíu og Japan.