FORSVARSMENN Húsasmiðjunnar hafa unnið að endurskoðun á rekstri fyrirtækisins á Lónsbakka við Akureyri að undanförnu, en í tengslum við þá vinnu var nær öllu starfsfólki, alls 28 manns, sagt upp störfum í byrjun nóvember sl.

FORSVARSMENN Húsasmiðjunnar hafa unnið að endurskoðun á rekstri fyrirtækisins á Lónsbakka við Akureyri að undanförnu, en í tengslum við þá vinnu var nær öllu starfsfólki, alls 28 manns, sagt upp störfum í byrjun nóvember sl. Bogi Þór Siguroddsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, sagði að frá því að fyrirtækið tók yfir rekstur byggingavörudeildar KEA á Lónsbakka fyrir um þremur árum hafi átt sér stað miklar breytingar á markaðnum fyrir norðan, en að þar gætti þó nokkurrar bjartsýni um þessar mundir.

"Til þess að geta farið yfir reksturinn og endurskipulagt hann á sem bestan hátt fyrir okkar viðskiptavini var ákveðið að fara þá leið að segja starfsfólkinu upp. Í dag eru um 20 stöðugildi á Lónsbakka og hefur þeim fækkað um 3-5 stöðugildi frá því í haust. Í þessari grein er töluvert um sveiflur og þessi fækkun starfsfólks sem hefur orðið er meira í bakvinnslu og á lager. "

Bogi Þór sagði að töluverð umræða hafi verið um hugsanlegan flutning á starfseminni frá Lónsbakka og inn á Akureyri. "Við erum ekkert á leiðinni frá Lónsbakka og það eru margir mjög góðir kostir við það að vera þar. Svæðið er stórt og aðgengi gott fyrir þungavöruþjónustu. Það er rétt að við erum ekki staðsettir í miðbæ Akureyrar og einhverjum finnst langt að fara út á Lónsbakka, þannig að það eru bæði kostir og gallar við staðsetninguna. Hins vegar hafa ýmsir sýnt þessu svæði áhuga og líkt og í öðrum viðskiptum endurskoðum við stöðu okkar eftir því sem aðstæður leyfa og tækifæri gefast."

Bogi Þór sagði að gríðarleg samkeppni væri á þessu svæði, en þrátt fyrir umtalsverðan flutningskostnað væri fyrirtækið að bjóða sama verð á Lónsbakka og í Reykjavík.