Traudl Junge, einkaritari Adolfs Hitlers, segir sögu sína.
Traudl Junge, einkaritari Adolfs Hitlers, segir sögu sína.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
TRAUDL Junge, fyrrum einkaritari Adolfs Hitlers, lést aðfaranótt mánudags, 81 árs að aldri. Aðeins fáeinum klukkustundum áður en hún skildi við hafði verið sýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín heimildarmynd þar sem Junge segir sögu sína.

TRAUDL Junge, fyrrum einkaritari Adolfs Hitlers, lést aðfaranótt mánudags, 81 árs að aldri. Aðeins fáeinum klukkustundum áður en hún skildi við hafði verið sýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín heimildarmynd þar sem Junge segir sögu sína.

Á þeim þremur árum, sem Traudl Junge starfaði sem einn af einkariturum Adolfs Hitlers, náði helförin gegn gyðingum hámarki. En Traudl Junge minntist "foringjans" einna helst sem heldur ljúfs manns, sem var "föðurlegur" í öllum samskiptum við hana.

Í heimildarmyndinni nýju, sem vakið hefur verulega athygli, viðurkennir Traudl Junge að hún hafi látið blekkjast þegar hún sótti um starf sem einkaritari Hitlers, þá aðeins 22 ára gömul. Og þegar seinni heimsstyrjöldinni lauk og hún stóð loks frammi fyrir staðreyndum, sem mörgum voru löngu kunnar, fylltist Junge sektarkennd; henni hafði líkað vel við "mesta glæpamann mannkynssögunnar".

Heimildarmyndin nefnist "Slegin blindu: Einkaritari Hitlers". Í henni rifjar Traudl Junge, hvíthærð og glæsileg, upp þá atburði, sem hún lifði fyrir meira en 50 árum. Viðtalið er tekið í íbúð hennar í München og hlé verður aðeins á frásögninni þegar Junge slær öðru hverju öskuna af sígarettunni.

Austurríski kvikmyndagerðarmaðurinn Andre Heller stendur fyrir þessu verki. Hann talaði alls við Traudl Junge í tíu klukkustundir og vann úr þeim samtölum 90 mínútna langa mynd.

Ræddu aldrei um gyðinga

Junge segir að hún hafi lítið vitað um hrylling þann, sem fylgdi valdaskeiði Adolfs Hitlers þrátt fyrir að hún hafi starfað svo nærri innsta hring valdaklíku nasista. Hún segist hafa setið nokkra fundi Hitlers og undirsáta hans og þeir hafi "nánast aldrei tekið sér orðið "gyðingur" í munn". Hún segist frekar minnast þess að lífið svo nærri "foringjanum" hafi verið rólegt og "laust við ógnir" ef frá eru skildir síðustu dagar Hitlers þegar Þriðja ríkið var að hruni komið og hermenn Rauða hersins voru komnir inn í Berlín. Skömmu síðar, 30. apríl 1945, framdi Hitler sjálfsmorð í byrgi sínu.

Þegar Hitler stóð frammi fyrir endalokunum var blekkingarleikurinn brátt á enda. "Hann sagði að öllu væri lokið," segir Junge. Tveimur dögum áður en Hitler og ástkona hans, Eva Braun, frömdu sjálfsmorð nötraði byrgið og skalf sökum fallbyssukúlna, sem sovésku sveitirnar létu rigna yfir borgina. Þá fékk Hitler einkaritarann til að skrifa niður erfðaskrá sína og síðustu hugleiðingar.

Á þeim þremur árum, sem hún vann fyrir Hitler, segist Traudl Junge aldrei hafa heyrt leiðtoga þýskra nasista ræða gyðinga eða helförina. "Ég skynjaði það aldrei svo að þeir væru meðvitað að uppfylla glæpsamleg markmið, sem þeir hefðu sett sér," segir hún. "Þetta mál var ekki rætt - að minnsta kosti ekki þegar við vorum viðstaddar," bætir hún við og vísar þannig til annarra ritara í þjónustu "foringjans".

Junge minnist þess að hafa einu sinni heyrt talað um fangabúðir þær sem nasistar ráku. Það var þegar yfirmaður SS-sveitanna, Heinrich Himmler, sótti Hitler heim í fjallavirki það, sem hann réð yfir í Ölpunum. "Hann sagði að búðirnar væru mjög vel reknar," rifjar Traudl Junge upp.

Efasemdir

En Junge viðurkennir að hún hafi skynjað að ekki væri allt með felldu þó svo Hitler hafi aldrei rætt fjöldamorðin, glæpina og kúgunina beinlínis þannig að hún heyrði. "Djúpt í huga mér voru efasemdir ... en mig skorti hugrekki til að gera eitthvað."

Þegar Þriðja ríkið var að hruni komið vorið 1945 sat Hitler einn löngum stundum og starði út í tómið. Hann var að mestu hættur að snæða. "Allt varð eitthvað svo óformlegt. Menn tóku meira að segja að reykja í návist Hitlers. Þetta var skelfilegur tími. Ég get varla rifjað upp hvernig mér leið. Við höfðum öll fengið áfall og líktumst einna helst vélum. Andrúmsloftið var hræðilegt."

Traudl Junge hitti Hitler fyrst eftir að hún hafði sótt um starf einkaritara hans. Hún minnist þess að henni þótti hann vingjarnlegur og blíðlegur. "Þetta var viðkunnanlegur eldri herramaður, vingjarnlegur og röddin blíðleg."

Undir lokin sannfærðist Junge um að Hitler hefði glatað öllu raunveruleikaskyni. Hegðun hans og ummæli voru þannig.

Vildi ekki sjá eyðilegginguna

Einhverju sinni lét hann þess getið við hana að hann gæti ekki hætt á að eignast börn: "Börn snillinga eru stundum kretín-dvergar," sagði Hitler og vísaði til samnefndrar fötlunar. Er Hitler var á ferð í bifreið sinni um Þýskaland dró hann stundum gluggatjöldin fyrir til að komast hjá því að berja augum þá eyðileggingu, sem hlotist hafði af loftárásum bandamanna. Bílstjóri hans fékk þau fyrirmæli að aka honum aðeins um þær götur Berlínar þar sem minnst tjón hafði orðið.

Andre Heller sagði á kvikmyndahátíðinni í Berlín að Traudl Junge hefði fallist á að tala við hann og segja frá reynslu sinni í fyrsta skiptið á langri ævi vegna þess að hún óttaðist að hinsta kallið bærist brátt. "Hún sagði: "Nú hef ég loks látið sögu mína frá mér. Nú þykir mér sem veröldin hyggist brátt kveðja mig."

Þessi ummæli lét Traudl Junge falla í símtali við Andre Heller nýverið og verða þau síðustu, sem eftir henni verða höfð.

Berlín. AP.