UTANRÍKISRÁÐHERRA Þýskalands hefur varað Bandaríkjamenn við því að líta á bandamenn sína í Evrópu sem "fylgihnetti".

UTANRÍKISRÁÐHERRA Þýskalands hefur varað Bandaríkjamenn við því að líta á bandamenn sína í Evrópu sem "fylgihnetti". Hann segir og að bandamenn Bandaríkjanna í Evrópu leggist allir sem einn gegn einhliða hernaðaraðgerðum stjórnvalda í Washington.

Ráðherrann, Joschka Fischer, lét þessi ummæli falla í viðtali við dagblaðið Die Welt, sem birti þau á þriðjudag. Er litið svo á að þetta feli í sér hörðustu gagnrýni, sem frá evrópskum stjórnvöldum hefur komið vegna þeirra ummæla George W. Bush forseta, að Norður-Kórea, Íran og Írak myndi "öxul hins illa" í heimi hér.

"Hið alþjóðlega bandalag gegn hryðjuverkaógninni felur ekki í sér grundvöll fyrir því að gripið sé til aðgerða gegn [tilteknu ríki] - og síst af öllu á það við um einhliða aðgerðir," segir Fischer. "Allir ráðherrar utanríkismála í Evrópu eru þessarar skoðunar. Af þessum sökum er hugtakið "öxull hins illa" marklaust."

Fischer tekur fram að hann sé eindreginn andstæðingur haturs og óvildar í garð Bandaríkjanna en bætir við: "Bandalag frjálsra lýðræðissinna má ekki færa niður á stig undirgefni. [Aðrir] þátttakendur í bandalaginu eru ekki fylgihnettir."

Í viðtalinu leggur þýski utanríkisráðherrann áherslu á það sjónarmið, sem nýtur nú fylgis meðal evrópskra ráðamanna, að "sigur" í baráttunni gegn hryðjuverkavánni vinnist ekki með hernaðaraðgerðum einum saman. Horfa þurfi til annarra þátta svo sem fátæktar í þróunarríkjunum. Skilgreina þurfi öryggishugtakið á ný og huga beri sérstaklega að hnattvæðingunni og áhrifum hennar utan Vesturlanda.

Tyrkir vara við aðgerðum gegn Írak

Tyrknesk stjórnvöld lýstu yfir þvi í gær að þau myndu "ekki líða" einhliða hernað Bandaríkjamanna gegn Írökum. Tók aðstoðarforsætisráðherra landsins, Mesut Yilmaz, sérstaklega fram að "þau ríki", sem hygðu á aðgerðir gegn Saddam Hussein Íraksforseta og stjórn hans, þyrftu að hafa í huga hversu hrikaleg áhrif slíkt myndi hafa á efnahag Tyrklands. Tyrkir halda því fram að refsiaðgerðir Sameinuðu þjóðanna gagnvart Írak hafi kostað þá meira en 40 milljarða dollara frá 1990. Sagði Yilmaz að ekki yrði liðið að "hagsmunir þjóðarinnar" yrðu fótum troðnir á þann veg.

Tyrkir eiga aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og eru almennt taldir mikilvægustu bandamenn Bandaríkjanna í þessum heimshluta.

Berlín. AP.