BORGARYFIRVÖLD eru um þessar mundir að undirbúa fundarhald með hagsmunaaðilum sem stunda útivist í einhverri mynd í nágrenni við félagssvæði Fáks á Víðivöllum við Elliðaár.
Upplýsti Óskar Bergsson varaformaður skipulagsnefndar Reykjavíkurborgar að ætlunin væri að kalla saman göngu- og hjólreiðafólk á þessu svæði auk hestamanna í því augnamiði að fá fram öll sjónarmið og finna í framhaldinu lausn á þeim vanda sem upp er kominn vegna lagningu reið-, göngu- og hjólreiðastíga á svæðinu.
Mikillar óánægju hefur gætt meðal hestamanna með lagningu síðastnefndu stíganna og telja þeir þá liggja of nærri reiðgötunum víða og sömuleiðis telja þeir ófært að beina allri þessari umferð í gegnum sömu undirgöng undir Suðurlandsveg við Rauðavatn og undirgöngin undir Norðlingabraut sem þeir telja of þröng fyrir alla þessa umferð og hafi mikla slysahættu í för með sér.
Sagði Óskar hvorki búið að dagsetja né finna fundinum stað.