Ein mesta söfnun í reiðmennskunni er æfingin "levade" sem Bent Branderup framkvæmir hér. Allt í fullkomnu jafnvægi.
Ein mesta söfnun í reiðmennskunni er æfingin "levade" sem Bent Branderup framkvæmir hér. Allt í fullkomnu jafnvægi.
Margir hallast að því að heimsókn hestamannsins danska Bents Branderups til Íslands um miðjan apríl flokkist undir stórviðburð í hestamennskunni á Íslandi. Valdimar Kristinsson fjallar hér um námskeiðið sem Branderup mun kenna á.

BENT Branderup fæst við og kennir þá grein klassískrar reiðmennsku sem kennd hefur verið barokktímann. Hann hefur getið sér heimsfrægðar fyrir hæfni og kunnáttu á þessu sviði og fengist mikið við kennslu samfara þjálfun hrossa.

Menntun sína hefur hann sótt til Spánar og meðal annars numið við The Royal Andalusian School of Equestrian Art sem er í bænum Jerez de la Frontera en sá skóli þykir sambærilegur við Spánska reiðskólann í Vín þótt ekki sé hann eins þekktur og umtalaður hér á landi.

Þá hefur Bent Branderup verið í námi hjá heimsfrægum meisturum á borð við Salavador Sanchez, Nono Oliveira og Egon von Neindorff svo nokkrir séu nefndir. Hann hefur látið mikið til sín taka í heimi hestamennskunnar, meðal annars með samningu kennslubóka og þá hefur hann gert fjölda myndbanda. Þá spillir það ekki að Bent Branderup þykir mjög sérstakur persónuleiki og lifir sig nokkuð inn í barokktímann með útliti og klæðaburði.

Það er Félag tamningamanna sem stendur að komu Branderups til landsins og í fréttatilkynningu frá félaginu segir að reiðmennska hans einkennist mjög af léttleika og þá einkum léttleika í beisli, stuttum og hnitmiðuðum þjálfunartímum og auk þess leggur hann mikla áherslu á söfnun og kröftugar hreyfingar. Reynir Aðalsteinsson tamningameistari segir að hann leggi mikið upp úr léttleika í beisli ásamt vilja og krafti og aukinni burðargetu afturfóta sem skapi háar hreyfingar.

Hentar vel fyrir íslenska hestinn

Helstu sérfræðingar félagsins eru sammála um að þessi gerð reiðmennsku henti einstaklega vel við uppbyggingu og þjálfun íslenska hestsins.

Námskeiðið verður hvort tveggja í senn einka- og sýnikennsla þar sem einungis átta knapar verða með hesta á námskeiðinu. Áhorfendum verður gefinn kostur á að fylgjast með færustu reiðmönnum og reiðkennurum FT í kennslustund hjá þessum snjalla hestamanni. Í fréttatilkynningunni segir að sumir hestanna sem knaparnir mæta með séu sumir hverjir landskunnir gæðingar.

Þeir sem njóta þess heiðurs að fá að mæta með hest eru Benedikt Líndal, Eyjólfur Ísólfsson, Reynir Aðalsteinsson, Sigurbjörn Bárðarson, Anton Páll Níelsson, Atli Guðmundsson, Einar Öder Guðmundsson og Olil Amble.

Þekkt hross í kennslustund

Ekki er ljóst hvaða hross þessir snillingar mæta með til leiks en vel kemur til greina að Sigurbjörn mæti með Markús frá Langholtsparti en einnig er Logi frá Skarði inni í myndinni hjá honum en hann er nú kominn í þjálfun á nýjan leik eftir fimm ára hvíld ef hvíld skyldi kalla.

Suðri frá Holtsmúla er ofarlega í huga hjá Olil og Einar Öder þarf að velja milli þriggja hrossa, þeirra Glóðar frá Grjóteyri, Faldar frá Syðri-Gróf og Odds frá Selfossi. Víst þykir að Eyjólfur muni mæta með Rás frá Ragnheiðarstöðum og Atli Guðmundsson mun mæta með Breka frá Hjalla.

Bent Branderup verður með þráðlausan hljóðnema og mun útskýra allar ábendingar til knapa þannig að áhorfsþátttakendur ættu að vera vel með á nótunum. Öllum verður heimill aðgangur og verður selt inn en aðgangseyrir hefur ekki verið ákveðinn. Umsjónarmenn með þessum viðburði eru þeir Atli Guðmundsson og Eyjólfur Ísólfsson.

Ætla má að þarna verði um sannkallaðan hvalreka að ræða á fjörur hestamanna. Áhugi fyrir fimiæfingum er mjög vaxandi þótt annað megi ætla eftir umfjöllun um fimikeppni á heimsmeistaramótum hér á hestasíðunni. Áhugi fyrir keppni í greininni virðist lítill en skilningur á vægi æfinganna til uppbyggingar alhliða reiðhesta virðist hinsvegar mjög vaxandi.