Eiríkur Gíslason
Eiríkur Gíslason
Námslánin eru of lág og duga ekki til framfærslu, segir Eiríkur Gíslason. Á í ljósi þess að krefjast hækkunar námslána fyrir þá tekjuhæstu og skilja þá tekjulægstu eftir?

RÖSKVA hefur ávallt staðið fyrir jafnrétti til náms. Lánasjóður íslenskra námsmanna gegnir lykilhlutverki í að tryggja jafnan aðgang að námi og því hefur Röskva lagt mikla áherslu á lánasjóðsmál. Röskva hefur sýnt festu í málefnum lánasjóðsins og árangurinn liggur fyrir. Á síðasta ári hækkuðu námslánin þriðja árið í röð og stúdentar unnu mikilvægan sigur hjá umboðsmanni Alþingis.

Skýr stefnu- munur í LÍN

Lánasjóðsmálin eru iðulega í brennideplinum í stúdentaráðskosningum. Sjaldan hefur þó verið jafnskýr ágreiningur milli fylkinganna um þau markmið sem setja beri á oddinn og nú. Í komandi kosningum er því kosið um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Það er kosið um það hvort stúdentaráð setji hækkun grunnframfærslunnar eða lækkun skerðingarhlutfallsins á oddinn. Röskva leggur höfuðáherslu á hækkun grunnframfærslunnar, enda skilar slík hækkun sér til allra. Lækkun skerðingarhlutfallsins leiðir hins vegar fyrst og fremst til hækkunar hjá námsmönnum með hæstu tekjurnar og skilur þá tekjulægstu algerlega eftir. Þetta er því spurning um forgangsröðun. Við vitum að lánin eru of lág og duga ekki til framfærslu. Eigum við undir þeim kringumstæðum að krefjast hækkunar námslána fyrir þá tekjuhæstu og skilja þá tekjulægstu eftir? Röskva er ekki þeirrar skoðunar. Röskva telur eðlilegra og réttlátara að veita hækkununum til allra með hækkun grunnframfærslunnar.

Hærri bókalán og aukið félagslegt tillit

Röskva vill einnig halda áfram baráttunni fyrir auknu félagslegu tilliti en undir forystu Röskvu hefur stúdentaráð náð verulegum árangri á þeim vettvangi með úrskurðum umboðsmanns Alþingis. Röskva vill líka að LÍN taki tillit til verulegra verðhækkana á bókum. Bókalán LÍN hrökkva skammt fyrir bókakostnaði námsmanna og því vill Röskva berjast fyrir hækkun þeirra.

Rétt skal vera rétt

Röskva hefur lagt mikla áherslu á hækkun grunnframfærslu LÍN, enda skilar slík hækkun sér til allra lánþega. Mikill árangur hefur náðst í þeim efnum á undanförnum árum, enda hefur grunnframfærslan hækkað í þrjú ár. Í kosningabaráttunni hefur þeirri fullyrðingu verið haldið á lofti að grunnframfærsla LÍN hafi lækkað um 8,7% í valdatíð Röskvu. Þeir reikningar byggjast ekki á staðreyndum málsins, enda er upphæð grunnframfærslunnar þar reiknuð allt aftur til ársins 1990, þegar Vaka stýrði stúdentaráði, námslánin lækkuðu og mikil verðbólga ríkti. Staða lánasjóðsmála þegar Vaka stjórnaði stúdentaráði er ekki vitnisburður um það hvernig Röskva hefur staðið sig og því afar sérkennilegt af hverju tölum frá 1990 er haldið á lofti.

11,7% hækkun námslána í tíð Röskvu

Ef grunnframfærsla LÍN og vísitala neysluverðs eru bornar saman frá þeim tímapunkti að Röskva tók við kemur í ljós að grunnframfærslan hefur hækkað um 11,7% umfram verðlag á þessu tímabili. Það er sama hvernig litið er á málið - árangurinn af lánasjóðsbaráttu Röskvu er augljós. Talnaleikir um það hvernig staðan var árið 1990 breyta engu þar um, og eru í raun einungis vitnisburður um það hvernig Röskva sneri lánasjóðstaflinu stúdentum í hag eftir að hún komst til valda. Röskva vill halda baráttunni ótrauð áfram og sækist eftir umboði þínu til að leiða lánasjóðsbaráttuna á næsta starfsári og ná fram frekari kjarabótum fyrir námsmenn.

Höfundur skipar 3. sæti á lista Röskvu til stúdentaráðs.