Guðjón Ármannsson
Guðjón Ármannsson
Vaka vill samstarf, segir Guðjón Ármannsson, og með samstarf að leiðarljósi mun Vaka ná betri árangri en núverandi meirihluti.

DAGANA 20. og 21. febrúar verður kosið til Stúdentaráðs og Háskólaráðs. Vaka hefur lagt fram ýtarlega stefnuskrá fyrir kosningarnar og leggur áherslu á að kosningarnar snúast um málefni og hvaða leiðir Stúdentaráð fer í því að ná hagsmunamálum sínum fram. Leiðirnar að settum markmiði skipta ekki síður máli en hagsmunamálin sjálf.

Vilji stúdenta verði virtur

Eitt helsta stefnumál Vöku er samstarf í Stúdentaráði, enda er samstarf í Stúdentaráði forsenda þess að árangur næst í hagsmunabaráttu stúdenta. Það er sorglegt að það skuli þurfa að koma til þess að gera samstarf í Stúdentaráði að kosningamáli, en þannig er veruleikinn engu að síður.

Ár hvert heyrist sú spurning frá nemendum hvers vegna fylkingarnar tvær í Stúdentaráði geta ekki unnið betur saman að loknum kosningum. Við tökum undir þessa spurningu, enda hefur Vaka í vetur gagnrýnt núverandi meirihluta fyrir skort á samstarfsvilja og ekki síst fyrir það að virða ekki úrslit síðustu kosninga.

Í fyrra sigraði Röskva kosningar til Stúdentaráðs með innan við helming greiddra atkvæða og munurinn á fylkingunum var aðeins 57 atkvæði. Meirihlutinn hunsaði hins vegar úrslitin og skipaði í stjórn Stúdentaráðs þannig að Röskva fékk fimm fulltrúa en Vaka aðeins tvo. Formenn allra nefnda Stúdentaráðs eru Röskvuliðar og margar tillögur Vöku í Stúdentaráði eru felldar að því er virðist eingöngu vegna þess að þær koma frá Vöku.

Þessi vinnubrögð hafa bitnað á stúdentum, eins og árangur í lánasjóðsmálum sýnir klárlega.Vaka hafnar slíkum vinnubrögðum og mun ekki starfa á þennan hátt.

Vaka vill kraftmeira Stúdentaráð

Stúdentaráð Háskóla Íslands á að vera vettvangur fyrir kröftuga rödd stúdenta og með samstarfi innan ráðsins gefur augaleið að betri árangur næst. Ef stúdentar eru í vafa um hvort einhver munur er á fylkingunum tveimur sem bjóða sig fram er hægt að svara þeirri spurningu játandi. Munurinn felst meðal annars í því að Vaka boðar samstarf og með samstarf að leiðarljósi mun Vaka ná betri árangri en núverandi meirihluti. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að hægt sé að lofa betri árangri, enda getur Stúdentaráð ekki starfað af fullum krafti þegar helmingi stúdentaráðsliða er beinlínis haldið frá hagsmunabaráttunni.

Háskóli Íslands glímir nú við aukna samkeppni annarra innlendra skóla á háskólastigi. Vaka fagnar þeirri samkeppni en kvíðir engu, þar sem Háskóli Íslands er eini rannsóknarháskóli Íslands og hefur því yfirburðastöðu gagnvart öðrum skólum. Við samkeppninni þarf hins vegar að bregðast og með því að starfa á þann hátt sem núverandi meirihluti gerir, er Stúdentaráð að veikja samkeppnisstöðu Háskólans. Við þurfum á öllum okkar kröftum að halda í þeirri baráttu sem er framundan og getum ekki leyft okkur að hafa aðeins helming Stúdentaráðs virkan.

Til að Stúdentaráð skili sem mestum árangri í hagsmunabaráttu sinni verður það einnig að vera í góðum tengslum við nemendur Háskólans og ekki síst nemendafélögin í einstökum deildum skólans. Stúdentaráð á að starfa sem regnhlífarsamtök allra hagsmunaaðila stúdenta innan skólans. Það þarf að stórauka samstarf Stúdentaráðs við nemendafélög skólans til að svo megi verða. Það ætlar Vaka að gera.

Samstarf er forsenda árangurs. Kosningarnar í lok febrúar snúast ekki síst um samstarf í Stúdentaráði. Ég hvet stúdenta til að kynna sér stefnumál fylkinganna og nýta sér kosningarétt sinn á kjördag.

Höfundur er laganemi og skipar 2. sæti á lista Vöku til Stúdentaráðs.