VÍKVERJI er áhugamaður um kóngafólk og fylgist vel með sorgum þess og sigrum.

VÍKVERJI er áhugamaður um kóngafólk og fylgist vel með sorgum þess og sigrum. Margrét prinsessa, systir Elísabetar Bretadrottningar, lést um helgina og Víkverji gat ekki neitað sér um að fylgjast með fréttum af láti hennar á fréttasjónvarpsstöðinni Sky sem fylgist jafnan vel með því sem gerist á Bretlandseyjum. Stöðin rifjaði upp ævi Margrétar og spjallaði við vini hennar. Svo ótrúlegt sem það kann að hljóma var nánast ekki fjallað um neitt annað á sjónvarpsstöðinni sl. laugardag en lát prinsessunnar.

Víkverji saknaði þess að í allri þessari miklu umfjöllun skyldi ekki verið fjallað um þá staðreynd að Margrét lést úr afleiðingum reykingasjúkdóma. Margrét var stórreykingamanneskja allt sitt líf og þurfti m.a. að nema brott hluta af öðru lunga hennar eftir að þar greindist krabbamein. Samt hélt hún áfram að reykja.

Heilsa Elísabetar drottningar hefur alla tíð verið ólíkt betri en Margrétar systur hennar. Drottningin virðist hafa allar forsendur til að ná sama aldri og móðir hennar sem orðin er 101 árs gömul. Fróðlegt hefði verið að heyra álit lækna á því hvers vegna svona mikill munur hefur verið á heilsu þessara þriggja kvenna og hvort ekki er líklegast að ástæðan fyrir þessu sé sú að Margrét er sú eina sem hefur reykt stærstan hluta lífs síns. Sú mikla athygli sem lát prinsessunnar hlut hefði þannig mátt nota til að vekja athygli á hræðilegum afleiðingum reykinga.

VÍKVERJI hefur gaman af því að fylgjast með spurningaþáttum í sjónvarpi. Nú er hafinn í sjónvarpinu spurningaþátturinn Gettu betur en í honum keppa nemendur í framhaldsskólum. Víkverji hefur haft gaman að því að fylgjast með þessum þáttum. Það er bara eitt sem fer ósegjanlega í taugarnar á honum og það er hinn fátæklegi orðaforði stjórnanda þáttarins, Loga Bergmanns Eiðssonar. Uppáhaldsorð Loga er orðið jæja. Þetta orð notar hann aftur og aftur í þáttinum. "Jæja ... jæja ... jæja ... jæja," segir Logi í tíma og ótíma. Stundum fær maður á tilfinninguna að Loga leiðist að taka þátt í þessum þáttum og geti ekki leynt því að hann vilji drífa þetta af og segi því "jæja" til áherslu. Kannski dettur honum bara ekkert í hug þess vegna segir hann bara "jæja".

Logi Bergmann er prýðilegur sjónvarpsmaður og ágætur fréttamaður. Það eina sem hann á eftir að gera til að ná fullkomnum tökum á miðlinum er að hætta þessu eilífa "jæja ... jæja". Ef Logi hættir þessu ekki ætlar Víkverji að hætta að horfa á Gettu betur.

VÍKVERJA fannst athyglisverðar upplýsingar koma fram í frétt í Morgunblaðinu í gær um að bílatryggingar hefðu hækkað um 79% á síðustu fimm árum á sama tíma og neysluverðsvísitala hefði hækkað um 23,8%. Enginn liður vísitölunnar hefur hækkað jafnmikið og bílatryggingar.

Sjálfsagt hefur verið einhver grundvöllur fyrir hækkun á tryggingum en það er nokkuð vel í lagt af hálfu tryggingafélaganna að hækka um 79%.