MÁR Guðmundsson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, segir að Seðlabankinn telji flest benda til að viðskiptahallinn á síðasta ári hafi verið í kringum 43,6 milljarða, sem er nokkru minni halli en Þjóðhagsstofnun spáði í byrjun desember en þá spáði...

MÁR Guðmundsson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, segir að Seðlabankinn telji flest benda til að viðskiptahallinn á síðasta ári hafi verið í kringum 43,6 milljarða, sem er nokkru minni halli en Þjóðhagsstofnun spáði í byrjun desember en þá spáði stofnunin 49 milljarða halla.

Viðskiptahallinn jókst mikið 1998 þegar hann fór upp í 40 milljarða. Á árunum 1998-2000 var viðskiptahallinn samtals 150 milljarðar króna. Viðsnúningur varð í fyrra þegar draga fór úr viðskiptahalla. Endanlegar tölur liggja ekki fyrir en Már Guðmundsson segir að Seðlabankinn spái því að viðskiptahallinn á árinu hafi verið 43,6 milljarðar samanborið við 67,1 milljarð árið 2000. Í byrjun árs spáði Þjóðhagsstofnun 72,1 milljarðs viðskiptahalla á árinu. Í endurskoðaðri spá frá því í október var hallinn talinn verða 58,6 milljarðar og í spá frá því í byrjun desember er spáð 49 milljarða halla.

"Meginskýringar á minni viðskiptahalla eru samdráttur í innflutningi samfara því að ofþensla hefur byrjað að hjaðna og gengi krónunnar hefur lækkað. Auk þess hefur útflutningur á síðustu mánuðum verið tiltölulega kröftugur. Við erum að spá áframhaldi á þessari þróun. Þrátt fyrir að viðskiptahallinn sé að minnka var hann samt töluverður á síðasta ári. Við erum að tala um viðskiptahalla í krónum sem er svipaður og 1999. Samt er þetta betri útkoma en spáð var í desember," segir Már.

Þjóðhagsstofnun spáði því í desember að viðskiptahalli á þessu ári yrði 38,4 milljarðar, en Már segir að Seðlabankinn spái því að viðskiptahallinn geti orðið heldur minni eða 33 milljarðar. Fram kom hjá forsætisráðherra á viðskiptaþingi í fyrradag að fjármálaráðuneytið spáir því að hallinn í ár verði 25-30 milljarðar.

Endanlegar tölur um viðskiptahalla í fyrra verða birtar í byrjun mars.