Jóhann Smári Sævarsson
Jóhann Smári Sævarsson
JÓHANN Smári Sævarsson óperusöngvari hefur skrifað undir tveggja ára samning við óperuhúsið í Regensburg í Suður-Þýskalandi frá og með september næstkomandi.

JÓHANN Smári Sævarsson óperusöngvari hefur skrifað undir tveggja ára samning við óperuhúsið í Regensburg í Suður-Þýskalandi frá og með september næstkomandi. Á samningstímanum mun Jóhann syngja hlutverk baróns Ochs í Rósariddaranum eftir Strauss, en einnig Philippo úr Don Carlo eftir Verdi, Leoporello úr Don Giovanni eftir Mozart og Colline úr La Boheme eftir Puccini.

Í samtali við Morgunblaðið sagðist Jóhann Smári ákaflega ánægður með samninginn og hlakka til að takast á við þau mörgu stóru hlutverk sem hann fæli í sér. "Eftir samningstíma minn hjá Kölnaróperunni, sem var óhjákvæmilega nokkuð bindandi, ákvað ég að ráða mig ekki fast fyrr en ég fengi rétta samninginn með réttu hlutverkunum. Nú er sá samningur kominn, ég fæ þarna átta mjög góð hlutverk, þar á meðal þrjú alveg topphlutverk," segir Jóhann Smári og á þar við hlutverk baróns Ochs, sem er meðal viðamestu bassahlutverka óperubókmenntanna, Leoporello úr Don Giovanni og Philippo úr Don Carlo, sem Jóhann Smári segir vera sitt draumahlutverk. Hann segir óperuhúsið í Regensburg teljast til svokallaðra B-húsa, en það hafi verið í mikilli uppbyggingu síðustu ár. "Þetta er alveg mátulegur vettvangur og hæfilega stór til þess að byrja að takast á við þessi risahlutverk svona eitt á eftir öðru. Óperuhúsið er jafnframt vel staðsett, rétt utan við München. Þetta er svæði sem fylgst er með og gæti samningurinn því orðið góður stökkpallur hvað framtíðina varðar."

Jóhann starfaði í þrjú ár við Óperuhúsið í Köln að loknu námi við sameiginlega óperudeild konunglegu tónlistarskólanna í Lundúnum. Frá árinu 1998 hefur hann verið búsettur á Íslandi þar sem hann hefur sinnt kennslu jafnframt því að taka að sér verkefni erlendis. Þá er Jóhann Smári einn frumkvöðla að stofnun Norðuróps, félags um óperuflutning sem lagt hefur áherslu á nýsköpun í íslensku óperulífi.

Jóhann Smári segist ekki ætla að segja skilið við íslenska óperuhefð þótt leiðin liggi til Þýskalands. "Þó svo að við hjónin flytjum til Regensburg í tvö ár hyggjumst við halda tengslunum við starfsemi Norðuróps. Við höfum t.d. unnið undanfarið að undirbúningi óperuuppfærslu fyrir sumarið 2003 í samvinnu við erlenda leik- og hljómsveitarstjóra," segir Jóhann Smári, en hann mun mæta til æfinga í Regensburg í júní, þegar æfingar á Rósariddaranum hefjast. Á vormánuðum mun Jóhann Smári hins vegar syngja á nokkrum óperugalakvöldum ásamt fleiri einsöngvurum af ungu kynslóðinni áður en haldið er utan.