Frá gjörningi Heklu Daggar Jónsdóttur á bílastæði Kringlunnar.
Frá gjörningi Heklu Daggar Jónsdóttur á bílastæði Kringlunnar.
LISTAMAÐURINN á horninu er nú á förum, eftir farsæla vetursetu í borginni.

LISTAMAÐURINN á horninu er nú á förum, eftir farsæla vetursetu í borginni. Þessi sýningaröð sem þau Ásmundur Ásmundsson og Gabríela Friðriksdóttir hafa staðið fyrir með miklum myndarskap lauk með mikilli fagnaðarhátíð á bílastæðinu framan við innganginn að Nýkaupi í Kringlunni. Hekla Dögg Jónsdóttir kom akandi á bílnum sínum og lagði honum í stæði. Ásamt aðstoðarmanni kom hún fyrir kassa með jarðarberjum á vélarhúsi bílsins, og öðrum kassa með hvítum kúlulaga trúðshausum til að festa á loftnetsstangir bíla. Trúðshausana seldi hún á hundrað krónur stykkið.

Að því búnu stillti hún upp ferðatæki með snældu við hlið kassanna tveggja og spilaði viðstöðulaust lítinn lagstúf sem hún samdi ásamt Jessicu Hutchins, bandarískri starfsystur sinni. Rúsínan í pylsuendanum voru tvær stórar ljósmyndir af skælbrosandi andliti Heklu Daggar og vinkonu hennar, klipptar eftir útlínum andlitanna og plastaðar. Þessar myndir voru festar á rúðuþurrkurnar, og þær settar í gang.

Sláttur rúðuþurrknanna með andlitunum virkaði sem tifandi taktmælir undir líflegri, en þunnildislegri tónlistinni. Á meðan dreif að fólk til að kaupa kúluhausa á útvarpsstöngina, eða næla sér í jarðarber. Í miðri útsöluösinni í Kringlunni var skálað í kampavíni undir dynjandi tónlistinni, tifandi hausunum og viðskiptunum með trúðakúlurnar. Um leið var þetta lokahóf yfir ágætlega heppnaðri röð sýninga.

Hafi það verið ætlunin að sýna möguleika listarinnar í tengslum við lífið sjálft virðist framkvæmdin hafa heppnast prýðilega. Listin reddar deginum, eins og verk Heklu Daggar heitir, sver sig í ætt við ýmislegt af því sem áður hefur verið gert undir merkjum Listamannsins á horninu. Það breytir því þó ekki að leikandi uppákoma, hressileg framsetning og fumlaus framkvæmd sýndi Heklu Dögg engu að síður í essinu sínu. Frá upphafi ferils síns hefur hún öðrum betur kunnað að nýta sér gjörninginn sem tækifæri til að skemmta áhorfendum. Henni brást ekki bogalistin í Kringlunni. Segja má að hún hafi sett endapunktinn á sýningaröðina Listamaðurinn á horninu með leiftrandi stæl.

Halldór Björn Runólfsson