Leikstjóri: Peter Docter. Handritshöfundur: Robert L. Baird, Dan Gerson. Tónlist: Randy Newman. Tölvuteiknimynd. Leikraddir ísl. talsetningu, leikstjóri Júlíus Agnarsson: Ólafur Darri Ólafsson, Felix Bergsson, Bríet Ólína Kristinsdóttir, Magnús Ragnarsson, Pétur Einarsson, Hjálmar Hjálmarsson, ofl. Bandarískar leikraddir: John Goodman, Billy Crystal, Mary Gibb, Steve Buscemi, James Coburn, Jennifer Tilly. Sýningartími 92 mín. Pixar/Walt Disney. Bandaríkin 2001.

TÖLVUUNNAR teiknimyndir gerast æ algengari og fjölskrúðugari. Fyrirtækið Pixar hefur sérhæft sig í þessari tækni og gert margar þær bestu, í samvinnu við Disney. Þaðan kemur sú nýjasta, Skrímsli hf, eða Monsters Inc., að venju er boðið uppá bæði íslenska og upprunalega raddsetningu.

Samkvæmt boðskap myndarinnar virðast skrímsli jafnhrædd, ef ekki skelkaðri við börn en börn við skrímsli. Skrímslin búa í Skrímslaborg, þar er engin Rafmagnsveita Skrímslaborgar er til staðar, heldur fær hún orkuna frá skelfingaröskrum barna. Skrímslin læðast einfaldlega á nóttinni í gegnum skáphurðirnar í barnaherbergjunum, gera þeim bylt við og tappa óhljóðunum á brúsa. Síðan er innihaldið notað í orkustofnuninni. Hugsið ykkur, engin mengun, engin uppistöðulón!

Í myndarbyrjun er nýtt vandamál farið að gera vart við sig í Skrímslaborg; það gerist sífellt strembnara að kvelja org úr börnum í mannheimum. Nú eru góð ráð dýr, orkukreppa blasir við ef ekkert er að gert. Sölmundur og Maggi, sem líta út eins og órangútan sem lent hefur í stökkbreytingu, og augasteinn með útlimi, leiða hóp góðu gæjanna. Ragnar (afmynduð eðla), og Vatness, sem minnir hvað helst á stökkbreyttan úkraínumann, eru fremstir í flokki hinna varasömu. Sölli og Maggi kynnast telpukrakkanum Búu, sem kemst fyrst barna inní Skrímslaborg. Veldur heimsókn hennar byltingu í samskiptum tegundanna: heimarnir skarast.

Hurðirnar sem tengja heima manna og skrímsla, minna óneitanlega á svipuð fyrirbrigði í Dark Tower-sögum Stephens King, eða götin á landakorti dverganna í Time Bandits, gamanmyndinni hans Terrys Gilliam. Hvað sem því viðvíkur, allt eru þetta galdrar í ævintýrum fyrir börn og fullorðna. Tölvuteiknaðar myndir eru að verða meinholl afþreying. Raddsetningin að verða betri og betri, bæði á frummáli og íslensku og frægum og færum röddum fer sífjölgandi í þeirri upphaflegu. Disney og önnur framleiðslufyrirtæki á þessu sviði, leggja síaukið vægi í að hafa uppá röddum sem hæfa fígúrunum best. Ástæðan sjálfsagt sú að þessar myndir blanda sér undantekningarlítið í hóp þeirra vinsælustu á ári hverju.

Sagan, teikningarnar og raddirnar skapa frábæra heild í Skrímsli hf, þar sem íslensku leikararnir standa sig með ágætum, enda orðnir sjóaðir í slíkri vinnu. Sú bandaríska, með Goodman, Tilly, Crystal, Buscemi og Coburn gamla í hörkustuði, höfðar sjálfsagt frekar til eldri áhorfenda. Hvort sem menn velja, Monsters, eða Skrímsli tryggja allri fjölskyldunni eldhressa skemmtun.

Sæbjörn Valdimarsson