HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur felldi í gær úr gildi ákvörðun dómsmálaráðherra um að framselja lettneskan ríkisborgara á þrítugsaldri, Jurijs Eglitis, til Lettlands en Lettinn er grunaður um að vera valdur að dauða þriggja manna í Lettlandi á árunum 1997 til...

HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur felldi í gær úr gildi ákvörðun dómsmálaráðherra um að framselja lettneskan ríkisborgara á þrítugsaldri, Jurijs Eglitis, til Lettlands en Lettinn er grunaður um að vera valdur að dauða þriggja manna í Lettlandi á árunum 1997 til 2000. Auk þess er hann sakaður um þrjú rán.

Ríkissaksóknari hefur áfrýjað niðurstöðu Héraðsdóms til Hæstaréttar Íslands.

Lettinn hefur verið í gæsluvarðhaldi hér á landi frá því í lok nóvember sl. eða frá því Interpol í Reykjavík barst tilkynning frá Interpol í Ríga í Lettlandi um að eftirlýstur lettneskur ríkisborgari, Jurijs Eglitis að nafni, væri á Dalvík. Lettinn var handtekinn daginn eftir og úrskurðaður í gæsluvarðhald að fyrirmælum ríkislögreglustjóra en fram kom í tilkynningunni frá Interpol í Ríga að Lettinn sætti lögreglurannsókn í Lettlandi vegna láts tveggja manna.

Beiðni um að Lettinn yrði framseldur til Lettlands barst síðan íslenska dómsmálaráðuneytinu hinn 14. desember sl. og varð ráðherra við þeirri beiðni í lok desember. Lögmaður Lettans fór hins vegar fram á að þeirri ákvörðun yrði hafnað og hún borin undir dómstóla.

Framsal með skilyrðum

Til vara krafðist lögmaður Lettans þess að framsal yrði heimilað með skilyrðum.

Í greinargerð lögmannsins til Héraðsdóms Reykjavíkur kemur m.a. fram að hann telji að réttarkerfi Lettlands fullnægi ekki þeim kröfum sem gerðar séu í Mannréttindasáttmála Evrópu. Þá segir í greinargerðinni að ekki hafi fengist óyggjandi staðfesting á því að dauðarefsing liggi ekki við meintum brotum Lettans.

Í niðurstöðum Héraðsdóms segir m.a. að í framsalsbeiðninni frá Lettlandi komi fram að dauðarefsing hafi verið numin úr lögum í Lettlandi. "Hins vegar er ekki sagt berum orðum í beiðninni að dauðarefsing samkvæmt eldri lögum verði ekki beitt en þar segir að sóknaraðili [Lettinn] verði sóttur til saka fyrir elsta brotið samkvæmt eldri lögum frá 1961. Samkvæmt þeim lögum kann dauðarefsing að liggja við brotinu."

Í niðurstöðu Héraðsdóms er vísað í lög nr. 13/1984 þar sem segir að setja skuli það skilyrði fyrir framsali að óheimilt sé að fullnægja dauðarefsingu gagnvart hinum framselda manni. Með vísan til þeirra laga m.a. og að ekki sé nægileg trygging fyrir því að dauðarefsing komi ekki til greina í máli Lettans felldi Héraðsdómur úr gildi ákvörðun dómsmálaráðherra um framsal.