HALLDÓR Ásgrímsson utanríkisráðherra segist ekki telja miklar líkur á að það takist að selja Landssímann á þessu kjörtímabili. Söluferlinu sem hófst í fyrra sé í reynd lokið. Halldór gagnrýnir yfirlýsingar formanns einkavæðingarnefndar um Landssímann.

HALLDÓR Ásgrímsson utanríkisráðherra segist ekki telja miklar líkur á að það takist að selja Landssímann á þessu kjörtímabili. Söluferlinu sem hófst í fyrra sé í reynd lokið. Halldór gagnrýnir yfirlýsingar formanns einkavæðingarnefndar um Landssímann. Hann telur einnig að ekki hefði átt að gera ráðningarsamning við Þórarin V. Þórarinsson til fimm ára.

"Ég tel engar líkur á því að Landssíminn verði seldur á þessu kjörtímabili. Því ferli sem hófst í sumar er að mínu mati lokið. Það hefur ekki fengist viðunandi verð og ég sé ekki að það séu miklar líkur á því að það skapist svigrúm til að ganga frá málinu á kjörtímabilinu."

Halldór sagðist telja að ástæðan fyrir því að ekki hefði tekist að selja Landssímann væri fyrst og fremst sú að ekki hefði verið fyrir hendi sá áhugi á málinu sem búist var við miðað við þær verðhugmyndir sem stjórnvöld höfðu. Hugmyndir seljanda og kaupenda um verð hefðu einfaldlega ekki farið saman.

Þau sjónarmið hafa komið fram að stjórnvöld hefðu átt að hefja söluferlið fyrr á síðasta ári en draga það ekki fram til hausts eins og gert var. Halldór sagðist taka undir þessi sjónarmið.

"Ég hvatti til þess að ljúka setningu laga sem heimiluðu söluna á sl. vorþingi og við stóðum að því af heilum hug. Við vorum jafnframt þeirrar skoðunar að það væri best að ljúka málinu sem fyrst. Þessi sjónarmið komu fram hjá fulltrúum Framsóknarflokksins í einkavæðingarnefnd. Formaður einkavæðingarnefndar taldi hins vegar nauðsynlegt að fresta því til haustsins og bar því við að málið væri ekki tilbúið. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið óheppilegt að fara ekki af stað fyrr."

Halldór sagði enga leið að segja til um hvort tekist hefði að selja Landssímann ef salan hefði hafist strax um vorið. Það væri ekki hægt að ganga út frá því að það hefði breytt einhverju.

Halldór var spurður um yfirlýsingar Hreins Loftssonar, fyrrverandi formanns einkavæðingarnefndar, um Landssímann.

"Ég tel að þessar yfirlýsingar séu ekki til þess fallnar að auðvelda það verkefni sem hann stýrði þangað til fyrir nokkrum dögum. Hann verður að gera sér grein fyrir því að það þarf að halda málinu áfram. Það hafa verið miklar deilur í kringum Símann og mér sýnist að hann sé nú heldur að auka þær."

Gagnrýnir ráðningar- samninginn við Þórarin

Ráðningarsamningur við Þórarin V. Þórarinsson, fyrrverandi forstjóra Landssímans, hefur talsvert verið gagnrýndur. Halldór var spurður um álit sitt á samningnum.

"Ég hafði ekki heyrt um efnisatriði þessa samnings og hafði aldrei látið mér detta það í hug að það væri verið að ráða framkvæmdastjóra til fimm ára inn í fyrirtæki sem átti að fara að selja. Það hefur líka komið í ljós að hann var með þeim hætti að það hefur kostað fyrirtækið mikla fjármuni sem engin ástæða var til," sagði Halldór.