Bandaríkin 1999. Myndform VHS. Bönnuð innan 12 ára. (103 mín.) Leikstjórn og handrit Ash. Aðalhlutverk Mischa Barton, Cameron Van Hoy, Burt Reynolds.

ÞAÐ er heilmikið í þessa litlu og ódýru mynd spunnið. Leikstjóranum og handritshöfundinum Ash (þekki nákvæmlega engin deili á honum) liggur greinilega mikið á hjarta og kvikmyndaformið er greinilega miðill sem hentar honum vel að tjá sig í gegnum. Sagan er einföld og athyglisverð stúdía byggð á Dog Day Afternoon-minni. Ungir hugsjónamenn (13 ára í þessu tilviki) taka upp á því að lítt hugsuðu máli að ræna hverfisbankaútibú en þegar allt ætlar úr böndunum að fara taka þeir bankastarfsmenn og aðra kúnna í gíslingu og óvart verður úr hin mesta kynslóðarimma.

Metnaður Ash leynir sér ekki. Þar liggja líka helstu gallarnir. Honum hleypur á stundum alltof mikið kapp í kinn og hann hefði haft gott af því að fá leiðsögn frá sér reyndari mönnum í faginu - svona til þess að tóna sig niður, stíga örlítið á bremsuna. Þá hefði hann líka mátt gefa sér tíma til að taka augum af hvíta tjaldinu af og til og sækja örlítið í hinn raunverulega reynsluheim líka en samtöl eru flest hin ósennilegustu, sérstaklega langar og úthugsaðar orðræður hinna örvingluðu 13 ára ungmenna.½

Skarphéðinn Guðmundsson