Hækkað í hljómflutningstækjunum og allir út á gólf og einbeiting og leikgleði skín úr hverju andliti.
Hækkað í hljómflutningstækjunum og allir út á gólf og einbeiting og leikgleði skín úr hverju andliti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÍÞRÓTTADAGUR aldraðra var haldinn í 17. skipti í gær í íþróttahúsinu við Austurberg. Íþróttadagurinn er haldinn á öskudag ár hvert, en það er Félag áhugafólks um íþróttir aldraðra sem stendur fyrir samkomunni.

ÍÞRÓTTADAGUR aldraðra var haldinn í 17. skipti í gær í íþróttahúsinu við Austurberg. Íþróttadagurinn er haldinn á öskudag ár hvert, en það er Félag áhugafólks um íþróttir aldraðra sem stendur fyrir samkomunni.

Þátttakendur í gær voru 600 talsins frá öllum félagsmiðstöðvum aldraðra í Reykjanesbæ og höfuðborgarsvæðinu. Hóparnir voru með sýningar á margskonar leikfimisæfingum auk þess sem dans var stiginn, sungið og farið í leiki.

Hið velþekkta Vinaband leiddi almennan söng að lokinni setningu hátíðarinnar og síðan voru sýndir hringdansar, ungverskur dans, kínversk leikfimi, leikfimi með teygjum og hringjum svo fátt sé nefnt.

Hjörtur Þórarinsson varaformaður Félags áhugafólks um íþróttir komst skemmtilega að orði þegar hann lýsti forystuliði félagsins en þar eru á ferðinni fyrrverandi íþróttakennarar. "Uppgjafaíþróttakennarar, en við erum þó ekki uppgefin," sagði hann eftir að hafa heilsað blaðamanni með íþróttamannslegu handtaki, þéttingsföstu. "Við höfum virkilega gaman af því að leiðbeina fólki og koma því af stað í þetta verkefni, því við vitum hvers virði heilsan er. Hún er það sem við eigum að vernda fram á hinsta dag."

Hann sagði fólk ekki þurfa að eiga það á hættu að ofbjóða sér, enda gæti hver og einn valið sér hreyfingu eftir getu.

Orkuflæðið jafnað með kínverskri leikfimi

Meðal þess sem var á dagskránni í gær var kínversk leikfimi, sem Guðný Helgadóttir leikkona kennir. "Það er leitast við að jafna orkuflæði líkamans og það reynir mikið á einbeitingu, ró, jafnvægi í huga og samhæfingu," sagði hún um leikfimina. "Þetta er geysilega mögnuð líkamsrækt því allt stoðkerfi líkamans styrkist með ástundun hennar."

Guðný kennir tveimur hópum í félagsmiðstöðinni í Gjábakka og segir þátttöku mjög góða og svipaða sögu er að segja í félagsmiðstöðvum Reykjavíkurborgar.

Meðal þeirra sem stunda leikfimina er Jóhanna Þórhallsdóttir, sem hefur nokkurra ára reynslu af henni og sækir tíma í félagsmiðstöðinni Hæðargarði 31. "Kínverska leikfimin er mjög góð og gefur manni meira en virðist við fyrstu sýn. Þetta er alhliða leikfimi og það er líka góður félagsskapur í kringum hana. Það var ágætt að byrja í henni á gamalsaldri og maður gerir það sem hentar manni, enda er lögð áhersla á að maður ofgeri sér ekki," sagði hún.

"Mér finnst gaman að taka þátt í þessu og gleðjast með öðrum og sjá hvað hinir eru að gera," sagði hún aðspurð um íþróttadaginn, sem haldinn hefur verið síðastliðin 7 ár í íþróttahúsinu við Austurberg.