Kjarnakonurnar fimm sem stofnuðu Verðanda. F.v. Margrét María Sigurðardóttir, Iðunn Antonsdóttir, Hulda Ragnheiður Árnadóttir, Víðir Pétursson, Júlía Sigurðardóttir og Arnfríður Aðalsteinsdóttir.
Kjarnakonurnar fimm sem stofnuðu Verðanda. F.v. Margrét María Sigurðardóttir, Iðunn Antonsdóttir, Hulda Ragnheiður Árnadóttir, Víðir Pétursson, Júlía Sigurðardóttir og Arnfríður Aðalsteinsdóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FYRIR skömmu stofnuðu fimm þingeyskar konur félag sem ber nafnið Verðandi - félag bjartsýnisfólks í Þingeyjarsýslum.

FYRIR skömmu stofnuðu fimm þingeyskar konur félag sem ber nafnið Verðandi - félag bjartsýnisfólks í Þingeyjarsýslum. Þessar konur eru Iðunn Antonsdóttir á Kópaskeri, Hulda Ragnheiður Árnadóttir í Aðaldal og Húsvíkingarnir Arnfríður Aðalsteinsdóttir, Margrét María Sigurðardóttir og Júlía Sigurðardóttir. Arnfríður segir tilgang félagsins þríþættan, í fyrsta lagi að skapa jákvæða umræðu og umfjöllun í Þingeyjarsýslum bæði út á við og innan þess samfélags sem þær búa í. Í öðru lagi að vekja athygli á því sem vel er gert og liður í því væri að útnefna Garp eða Gerplu mánaðarins úr hópi þingeyskra dugnaðarforka. Í þriðja lagi væri það vilji stofnenda að félagið yrði hugmyndabanki þar sem fólk gæti lagt inn hugmyndir sínar og um leið fengið stuðning við að koma þeim í framkvæmd.

Strax komu þrjár hugmyndir í bankann og sagði Arnfríður þær þegar komnar í fóstur hjá félaginu. Þetta eru hugmyndir um þríþraut þar sem þátttakendur hlaupa, hjóla og synda, þá er hugmynd um útitónleika og mun þetta tvennt fara fram 13. júlí. Þriðju hugmyndinni er fyrirhugað að koma í framkvæmd seinna eða í lok ágúst og er það Lundeyjarsund.

Fyrsti garpurinn

Garpur janúarmánaðar hefur verið valinn, það er Víðir Pétursson, sem hlýtur nafnbótina vegna þess frumkvæðis sem hann sýndi þegar hann hóf útgáfu vikublaðsins Skarps fyrir skömmu. Verðlaunin, Fjöreggið, voru að sjálfsögðu þingeysk. Hulda Ragnheiður fékk þá hugmynd að blása úr andareggi og láta síðan listamann úr héraðinu mála á það mynd. Trausti Ólafsson, myndlistarmaður á Húsavík, varð fyrir valinu að þessu sinni og málaði hann svan að hefja sig til flugs. Ætlunin er að listamenn úr Þingeyjarsýslum skapi verðlaunin sem veitt verða framvegis. Verðlaunin voru afhent í menningar- og kaffihúsinu Túni að viðstöddum um sextíu manns, öllum var boðið að gerast stofnfélagar að Verðandi og skrifuðu um fimmtíu manns sig á lista þar um. Arnfríður segir nafn félagsins komið frá örlaganornunum þremur, Urði, Verðandi og Skuld, sem ráði örlögum manna.