Ketill Gíslason afhenti landbúnaðarráðherra mótmælin.
Ketill Gíslason afhenti landbúnaðarráðherra mótmælin.
HÓPUR sauðfjárbænda af Suðurlandi, aðallega úr Rangárvallasýslu, gekk á fund Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra í gær og afhenti honum undirskriftir frá á annað hundrað bændum þar sem skorað er á hann að fresta afgreiðslu á frumvarpi sem liggur fyrir...

HÓPUR sauðfjárbænda af Suðurlandi, aðallega úr Rangárvallasýslu, gekk á fund Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra í gær og afhenti honum undirskriftir frá á annað hundrað bændum þar sem skorað er á hann að fresta afgreiðslu á frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi um gæðastýringu í sauðfjárrækt þar til búið er að ljúka úttekt á nytjalandi.

"Við viljum að frumvarpið um gæðastýringu og nytjaland verði ekki lögfest fyrr en búið er að ganga frá nytjalandi þannig að menn viti hvort og hvaða afréttum verður lokað. Við viljum að úttekt á heimalöndum sé klár áður en lögin eru sett þannig að það sé ekki verið að setja hluti af stað fyrr en menn vita að hverju þeir ganga," sagði Guðrún Stefánsdóttir, bóndi í Hlíðarendakoti.

Gæðastýring í sauðfjárrækt var ein af forsendum búvörusamningsins sem bændur gerðu við ríkið. Guðrún sagði að í búvörusamningnum hefði þessi gæðastýring ekki verið útfærð með þeim hætti sem nú væri rætt um. "Þetta er allt of dýrt kerfi og skilar sér ekki til bænda. Við viljum fá að búa sjálf en ekki láta stjórna okkur eins og strengjabrúðum," sagði Guðrún og sagði að gæðastýringin þýddi að bændur þyrftu að leggja á sig stóraukið eftirlit.

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra sagði að þessi gagnrýni kæmi seint fram því sauðfjársamningurinn hefði verið samþykktur af 2/3 hluta bænda í almennri atkvæðagreiðslu árið 2000.

"Þetta er samningur sem felur í sér að bændur eiga að eignast nýja og meiri möguleika á að þróa búskap sinn. Ég gerði mér alltaf grein fyrir því að í þessum samningi gætu verið viðkvæm atriði eins og um landnotin og skýrsluhaldið. Nú er búið að keyra eftir þessu kerfi í N-Þingeyjarsýslu og menn þar kvarta ekki sérstaklega. Menn hafa verið að þróa þessa gæðastýringu og gera hana einfaldari. Mér finnst því að þessar athugasemdir séu seint fram komnar en mun skoða þær, m.a. með tilliti til þess hvort hægt er að einfalda þetta kerfi. En ég verð auðvitað að halda áfram með þau verkefni sem mér eru falin þannig að þessi samningur geti á öllum sviðum tekið gildi eins og 2/3 hlutar bænda lögðu til í lýðræðislegri kosningu."

Guðni sagði að Landgræðslan væri þeirrar skoðunar að landnýtingarþátturinn yrði ekki vandamál. Því mætti ekki gleyma að landnotaþátturinn tæki ekki gildi fyrr en 2004 og því væri nægur tími til stefnu. Aðalatriði væri þó að sauðfé færi ekki illa með land í dag. Hann sagðist hafa meiri áhyggjur af hrossabeit.