MAGDEBURG verður eina Íslendingaliðið í undanúrslitum þýsku bikarkeppninnar í handknattleik þetta árið.

MAGDEBURG verður eina Íslendingaliðið í undanúrslitum þýsku bikarkeppninnar í handknattleik þetta árið. Alfreð Gíslason stýrði sínum mönnum til auðvelds sigur á sínu gamla félagi, Hameln, en Minden og Essen biðu bæði lægri hlut á heimavelli í átta liða úrslitunum í gærkvöld. Magdeburg, Lemgo og Nordhorn eru komin áfram og fjórða liðið verður Kiel eða Eisenach.

Ólafur Stefánsson náði sér ekki á strik með Magdeburg en skoraði þó 4 mörk. Lið hans vann létt, 26:16. Gueric Kervadec var markahæstur Magdeburgarmanna með 5 mörk. Essen saknaði illilega Patreks Jóhannessonar, sem er meiddur, og tapaði heima fyrir Nordhorn, 28:25. Minden, lið Gústafs Bjarnasonar, tapaði fyrir Lemgo í hörkuleik, 30:28, eftir að hafa verið yfir lengi vel.