* DRAGOSLAV Stojanovic , knattspyrnumaður frá Júgóslavíu , er genginn til liðs við 1. deildarlið Stjörnunnar.

* DRAGOSLAV Stojanovic , knattspyrnumaður frá Júgóslavíu , er genginn til liðs við 1. deildarlið Stjörnunnar. Stojanovic , sem er 32 ára miðjumaður, hefur leikið hér á landi í sex ár, lengst af á Austfjörðum með KVA , Þrótti í Neskaupstað og síðast Fjarðabyggð , en hann spilaði með Stjörnunni í 1. deildinni árið 1999.

* MAGNÚS Steindórsson , helsti markaskorari Eyjaliðsins KFS í 3. deildinni í knattspyrnu undanfarin ár, hefur gengið frá félagaskiptum yfir í ÍBV . Eins og áður hefur komið fram hefur Magnús , sem er 29 ára gamall, leikið æfingaleiki með ÍBV að undanförnu og skorað nokkuð af mörkum.

* KRISTJÁN Helgason hóf í gær keppni í undanmóti heimsmeistarakeppninnar í snóker. Kristján kom til leiks í 2. umferð og sigraði þar Surinder Gill , 9:6. Kristján mætir Matthew Couch í 3. umferðinni, en til að komast alla leið í aðalkeppnina í Sheffield þarf hann að sigra Couch , síðan Rod Lawler , þá Stuart Bingham og loks Nigel Bond , en þessir kappar koma til leiks hver í sinni umferð undanmótsins.

* KRISTJÁN er nú í 70. sæti heimslistans í snóker. Lawler er í 64. sæti, Bingham í 44. sæti og Bond er í 23. sæti. Bingham og Bond hafa báðir náð langt á stórmótum og Bond var um tíma í fimmta sæti heimslistans.

* BÚIST var við að Kristinn Björnsson, skíðamaður frá Ólafsfirði, og Haukur Bjarnason landsliðsþjálfari kæmu til Salt Lake City um klukkan ellefu í gærkvöldi að staðartíma, eða klukkan 4 í nótt að íslenskum tíma.

* DAGNÝ Linda Kristjánsdóttir fær því félagsskap á leikunum en aðrir íslenskir keppendur taka þátt í FIS -mótum í Vail . Ekki tókst að fá upplýsingar um árangur þeirra í fyrsta mótinu, sem var í gærkvöldi.

* HÚN hafði í nógu að snúast í fyrradag því um leið og brunkeppninni lauk var hún mætt á æfingu. Bruninu var frestað á mánudaginn og því var ekki um mikinn tíma að ræða fyrir æfingar fyrir tvíkeppnina sem verður í dag. Dagný Linda tók sér klukkustundar hlé eftir brunið í fyrradag áður en hún var mætt á æfingu fyrir tvíkeppnina.

* RETIEF Goosen, kylfingurinn frá Suður-Afríku, sem keppti á Canon-mótinu hér á landi síðasta sumar, hefur fengið lífstíðarkeppnisrétt á mótum í evrópsku mótaröðinni. Kylfingurinn snjalli fær þessa viðurkenningu fyrir frábæran árangur að undanförnu.

* GUÐFINNUR Kristmannsson skoraði 6 mörk fyrir Wasaiterna í gærkvöld þegar lið hans sigraði Warta , 26:24, í sænsku 1. deildinni í handknattleik. Þetta var fyrsti sigur Wasaiterna í þremur leikjum í síðari hluta mótsins, en liðið náði ekki að vera í hópi átta efstu liða fyrir áramót og leikur því ekki í úrslitakeppni um meistaratitilinn, heldur um sæti í úrvalsdeildinni á næsta ári.

* NORÐMENN eru efstir á verðlaunalistanum eftir 23 greinar á Ólympíuleikunum en þar verða veitt verðlaun í 78 greinum. Þeir hafa unnið til 8 verðlauna, 5 gullverðlauna og þrennra silfurverðlauna. Bandaríkjamenn eru með 10 verðlaunapeninga, 3 gull, 5 silfur og einn brons. Athygli vekur að Austurríkismenn eru í áttunda sæti en hafa samt fengið 9 peninga, 7 brons, einn silfur og einn gull.

* SUNDERLAND fékk í gær Patrick Mboma , knattspyrnumann frá Kamerún , lánaðan frá Parma á Ítalíu . Enska félagið kaupir hann á 600 milljónir króna í vor ef hann þykir þess virði. Mboma er 31 árs og var markahæsti leikmaður Kamerún í nýafstaðinni Afríkukeppni landsliða, þar sem hann hampaði gullverðlaunum með liði sínu. Mboma missti þó af úrslitaleiknum við Senegal vegna meiðsla.