Jón Steinsson
Jón Steinsson
Þegar öllu er á botninn hvolft, segir Jón Steinsson, má segja að Ragnar hafi misstigið sig a.m.k. í þrígang við vinnslu skýrslunnar.

ÞRIÐJUDAGINN 12. febrúar sl. birtist í Morgunblaðinu grein eftir Ragnar Árnason þar sem hann svarar grein minni frá því laugardaginn 9. febrúar. Í grein minni bendi ég á að líkan sem Ragnar notar í skýrslu sinni um áhrif auðlindaskatts á tekjur ríkisins sé ekki í samræmi við þær forsendur sem Ragnar gefur sér fyrr í skýrslunni og að af þeim sökum sé ekki unnt að taka mark á niðurstöðum skýrslunnar. Í svargrein sinni segir Ragnar að þessi ábending mín sé byggð á "einhverjum misskilningi".

Eins og ég rakti í fyrri grein minni gefur Ragnar sér eftirfarandi forsendu á bls. 4 í skýrslu sinni: "Auðlindagjald hefur ekki áhrif á framleiðslumagn eða hagkvæmni í sjávarútvegi". Þessa forsendu rökstyður Ragnar á eftirfarandi hátt í neðanmálsgrein: "Einn helsti kostur auðlindagjalds sem skattstofns hefur verið talinn sá, að það sé svokallaður rentuskattur og hafi ekki áhrif á hegðun sjávarútvegsfyrirtækjanna. Hér er m.ö.o. gert ráð fyrir því að það gangi eftir." Í grein sinni á þriðjudaginn segir Ragnar síðan að í skýrslunni sé "staðfastlega haldið í þessa forsendu".

Fjárfesting sjávarútvegsfyrirtækja

Einn þáttur í hegðun sjávarútvegsfyrirtækja er fjárfesting. Þegar Ragnar gefur sér að rentuskattar hafi engin áhrif á hegðun sjávarútvegsfyrirtækja er hann meðal annars að gefa sér að slíkir skattar hafi engin áhrif á fjárfestingarhegðun slíkra fyrirtækja. Allar niðurstöður Ragnars (bæði í Viðauka A og Viðauka C) byggjast hins vegar á því að auðlindagjald leiði til samdráttar í fjárfestingu. Í viðauka A útskýrir Ragnar reyndar ekki nákvæmlega hverjir það eru sem draga úr fjárfestingu sinni. En ef það eru ekki sjávarútvegsfyrirtækin þá veit ég svo sem ekki hverjir það ættu að vera.

Í umfjöllun um líkanið sem sett er fram í Viðauka C segir Ragnar: "Í líkaninu er ekki sérstakt auðlindagjald heldur eru allir skattar tekjutengdir. Álagning auðlindagjalds myndi því samsvara hækkun tekjuskatta á fyrirtæki." Þessi meðhöndlun á auðlindagjaldi brýtur augljóslega í bága við forsenduna um að auðlindagjald sé rentuskattur sem ekki hafi áhrif á hegðun sjávarútvegsfyrirtækja.

Til þess að fyrirbyggja misskilning vil ég að svo stöddu taka fram að hér er ég ekki að halda því fram að forsenda Ragnars um að auðlindagjald hafi ekki áhrif á hegðun sjávarútvegsfyrirtækja sé góð forsenda. Því síður er ég að halda því fram að auðlindagjald muni ekki hafa nein þjóðhagsleg áhrif. Ég er einfaldlega að benda á að meðhöndlun Ragnars á þeim líkönum sem hann setur fram í skýrslu sinni stangist á við þær forsendur sem hann gefur sér. Ástæðan er sú að Ragnar hefur ekki gefið sér neinar forsendur sem leiða til þess að auðlindagjöld hafi þjóðhagsleg áhrif. Og á meðan svo er hafa þau engin þjóðhagsleg áhrif í líkönum hans.

Það er raunar lítill vandi að byggja líkan þar sem auðlindagjöld hafa þjóðhagsleg áhrif. Ragnar gæti til dæmis gefið sér að ytri fjámögnun fyrirtækja sé dýrari en innri fjármögnun þeirra, e.t.v. vegna þess að fjármálamarkaðir eru ófullkomnir. Þá væri raunar sanngjarnt að gefa sér einnig að heimili eigi erfitt með að taka lán gegn veði í framtíðartekjum. Líkan á þessum nótum gæti Ragnar hæglega túlkað LÍÚ í hag ef það er það sem hann hefur áhuga á. Málið er að Ragnar setur ekki fram líkan á þessum nótum né neinum öðrum nótum sem skýrt gætu áhrif rentuskatta á þjóðhagsstærðir.

Gagnrýni Lúcasar

En víkjum að annars konar gagnrýni. Líkönin sem Ragnar setur fram eru keynesísk þjóðhagfræðilíkön sem mikið voru notuð á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Í einni frægustu ritgerð hagfræðibókmenntanna benti Robert Lucas á að líkön af þessu tagi væru algerlega gagnslaus þegar kemur að því að spá fyrir um áhrif breytinga á stefnu stjórnvalda. Raunar var eitt þeirra dæma sem Lucas tók í ritgerð sinni mjög svipað þeirri æfingu sem Ragnar framkvæmir í viðaukum sínum. Árið 1995 fékk Lucas Nóbelsverðlaun í hagfræði fyrir þessa mikilvægu ábendingu sem því miður hefur farið fram hjá Ragnari.

En jafnvel áður en hagfræðingar öðluðust skilning á "gagnrýni Lúcasar" þá hefði fáum dottið í hug að meðhöndla rentuskatt með þeim hætti sem Ragnar gerir í skýrslunni. Breytan sem Rangar segir að megi túlka sem auðlindagjald var notuð yfir skekkjandi skatta svo sem tekjuskatta og virðisaukaskatta.

Þegar öllu er á botninn hvolft má segja að Ragnar hafi misstigið sig a.m.k. í þrígang við vinnslu skýrslunnar. Í fyrsta lagi notaði hann líkan sem er gagnslaust þegar athuga á áhrif breytinga á stefnu stjórnvalda. Ef litið er framhjá því kemur í ljós að hann gefur sér að auðlindagjald hafi ekki áhrif á hegðun sjávarútvegsfyrirtækja í byrjun skýrslunnar en brýtur síðan í bága við þessa forsendu síðar í skýrslunni með því að láta fjárfestingu slíkra fyrirtækja dragast saman þegar auðlindagjald er lagt á. Ef einnig er litið framhjá þessari óheppilegu forsendu þá stendur eftir að Ragnar meðhöndlar auðlindagjald eins og um tekjuskatt væri að ræða án þess að færa nokkur rök fyrir að það sé viðeigandi. Þannig gefur hann sér í rauninni þá niðurstöðu sem hann vill áður en hann hefst handa og án þess að færa fyrir henni nokkur rök. Slík vinnubrögð eru vitaskuld ekki til þess fallin að greiða fyrir málefnalegri umræðu.

Höfundur er doktorsnemi í hagfræði við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum.