Knattspyrnufélagið Þróttur í Reykjavík í samvinnu við ÍT-ferðir ætlar að standa fyrir knattspyrnuhátíð fyrir stráka og stelpur á aldrinum 13-16 ára dagana 25.-28. júlí í sumar en krakkar á þessum aldri eru í 4. og 3. flokki.

Knattspyrnufélagið Þróttur í Reykjavík í samvinnu við ÍT-ferðir ætlar að standa fyrir knattspyrnuhátíð fyrir stráka og stelpur á aldrinum 13-16 ára dagana 25.-28. júlí í sumar en krakkar á þessum aldri eru í 4. og 3. flokki.

Mótið á að verða alþjóðlegt en aðstandendur þess hafa verið í samningaviðræðum við félög á Bretlandseyjum og má þar nefna félög eins og Leeds, Bolton, Manchester City, Rangers og Watford. Öllum íslenskum félögum stendur til boða að taka þátt í mótinu sem haldið verður á glæsilegu félagssvæði Þróttar í Laugardal en sex knattspyrnuvellir eru í dalnum. Þróttarar og Hörður Hilmarsson, frá ÍT-ferðum, hafa gert fimm ára samning um mótshaldið og ætla borgaryfirvöld í Reykjavík að styðja við það með margvíslegum hætti.

Vonast eftir 100 félögum árið 2006

Á blaðamannafundi sem Þróttarar efndu til í vikunni, þar sem mótið var kynnt, er verið að gæla við að 30-40 félög sendi lið til keppni í sumar en mótið eigi síðan að stækka að umfangi ár hvert og stefnt er á að 100 félög verði með lið á mótinu sumarið 2006 sem í verða um 2000 iðkendur.

"Við erum stórhuga enda með magnaða aðstöðu hér í Laugardalnum og rennur svolítið blóðið til skyldunnar að nota hana. Miðað við það magnaða foreldrastarf og það unglingastarf sem er hjá Þrótti í dag erum við ekkert hræddir við að takast á við þetta stóra verkefni," sagði Kristinn Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Þróttar, í samtali við Morgunblaðið.

Byggist á þátttöku íslensku liðanna

Við undirbúning mótsins hefur verið tekið mið að sambærilegum mótum í nágrannalöndunum og má þar nefna Gothia Cup í Gautaborg, sem mörg íslensk lið hafa tekið þátt í. "Auðvitað byggist mótið á að íslensku félögunum þyki það girnilegt og við ætlum að gera það með því að hafa mótið mjög metnaðarfullt og fá hingað til lands sterk erlend félagslið. Mótið byggist eingöngu á fótbolta. Þetta verður allsherjar hátíð sem tekið verður eftir, bæði hér í Reykjavík og víðar," sagði Kristinn.