BANDARÍKJAHER hefur neitað því að bandarískir hermenn hafi misþyrmt Afgönum, sem voru teknir til fanga fyrir mistök 23. janúar, og segir að Afganarnir hafi verið betur á sig komnir þegar þeir voru látnir lausir en þegar þeir voru handteknir.

BANDARÍKJAHER hefur neitað því að bandarískir hermenn hafi misþyrmt Afgönum, sem voru teknir til fanga fyrir mistök 23. janúar, og segir að Afganarnir hafi verið betur á sig komnir þegar þeir voru látnir lausir en þegar þeir voru handteknir.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið hyggst þó rannsaka staðhæfingar um að fangarnir hafi sætt barsmíðum og illri meðferð eftir að þeir voru teknir höndum í árás sérsveitarmanna í afganska héraðinu Uruzgan.

Richard Myers, forseti bandaríska herráðsins, sagði að ekkert hefði komið fram sem benti til þess að föngunum hefði verið misþyrmt.

The Washington Post hafði eftir fjórum fanganna, sem voru alls 27, að þeir hefðu sætt illri meðferð. Tveir þeirra sögðust hafa misst meðvitund vegna barsmíða og hinir tveir sögðust hafa rifbrotnað.

Bandaríski undirofurstinn Keith Warman sagði að enginn fótur væri fyrir þessum ásökunum, en hann stjórnar fangelsi bandarísku sérsveitanna í Suður-Afganistan. "Þeir voru reyndar betur á sig komnir en þegar þeir komu hingað," sagði hann. "Þeir voru skoðaðir þegar þeir komu og voru nokkrir þá með opin sár og aðrir marbletti, en enginn var beinbrotinn eða með alvarleg meiðsli."

Frank Wiercinski, yfirmaður sérsveitanna, sagði að fulltrúar Rauða krossins hefðu ekki fundið neinar vísbendingar um að fangar í herstöðinni hefðu sætt illri meðferð. Afganarnir 27 voru teknir til fanga þar sem þeir voru taldir vera talibanar eða félagar í al-Qaeda, samtökum hryðjuverkamannsins Osama bin Ladens, en í ljós kom að svo var ekki. Þeir voru látnir lausir eftir að hafa verið í haldi í 16 daga.

Stjórn Írans fær gögn um meinta aðstoð við al-Qaeda

Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur einnig hafið rannsókn á því hvort þeir sem féllu í árásinni, 21 Afgani, hafi ekki heldur verið félagar í al-Qaeda eða talibanar. Bandaríski herinn hefur viðurkennt að svo virðist sem þeir hafi verið vinveittir bráðabirgðastjórninni í Kabúl.

Sendimaður Bandaríkjastjórnar í Afganistan, Zalmay Khalilzad, sagði í gær að hún hefði afhent írönskum stjórnarerindrekum upplýsingar um að íranskir harðlínumenn hefðu aðstoðað liðsmenn al-Qaeda við að flýja frá Afganistan og reynt að grafa undan bráðabirgðastjórninni.

Sendimaðurinn sagði að harðlínuklerkar, sem styðja Ali Khamenei erkiklerk, trúarleiðtoga Írans, og úrvalslið íranska hersins, Byltingarverðirnir, hefðu séð afgönskum fylkingum í vesturhéruðunum fyrir vopnum og peningum með það að markmiði að veikja bráðabirgðastjórnina í Kabúl. Hann fullyrti einnig að nokkrir foringjar í úrvalsliðinu hefðu átt samstarf við al-Qaeda í nokkurn tíma og hjálpað liðsmönnum samtakanna að flýja til Írans. Nokkrum þeirra hefði verið leyft að fara þaðan til annarra landa.

Stjórn Írans hefur vísað þessum ásökunum á bug. Khalilzad sagði að umbótasinnar í Íran, undir forystu Mohammads Khatamis forseta, hefðu sýnt að þeir vildu aðstoða Bandaríkjamenn í baráttunni við hryðjuverkamenn en öðru máli gegndi um harðlínumenn, sem líta á Bandaríkjamenn sem erkióvini sína.

Blaðið Guardian hafði eftir heimildarmönnum, sem tengjast talibönum, að al-Qaeda-liðar og talibanar hefðu flúið í gegnum Pakistan til Írans og komist þaðan til arabaríkja.

Washington. AFP, AP.