DALAI Lama segir að tilgangur lífsins sé að leita hamingjunnar. Við fæðingu hefur manneskjan allar forsendur frá náttúrunnar hendi til að elska lífið.

DALAI Lama segir að tilgangur lífsins sé að leita hamingjunnar. Við fæðingu hefur manneskjan allar forsendur frá náttúrunnar hendi til að elska lífið. Lífsgleði og lífsorka eru þættir sem rúmast innra með öllum hugsandi lífverum og er hér talið til lífsgæða. Manneskjan er sköpuð til að taka þátt í lífinu á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Ýmsar aðstæður geta þó haft áhrif á hæfni hennar til að öðlast lífshamingju. Innra með manninum leynast ótrúlegir hæfileikar til að bæta eigið líf og heilsu. Hægt er að vinna markvisst að því að auka lífsgæði, öðlast meiri lífsgleði og lifa kærleiksríkara lífi. Ein forsendan er að einstaklingurinn taki ábyrgð á eigin lífi og heilsu og að hann hafi vilja til að þroska dulda hæfileika sína til að bæta lífsgæðin.

Sumir fræðimenn hallast að því að sjúkdómar og heilsubrestir orsakist af þverrandi lífsgæðum og menn geti bætt andlegt og líkamlegt heilbrigði með því að styrkja þætti sem stuðla að aukinni lífsgleði. Hluti af þessu er að lifa í sátt við sjálfan sig. Með því er ekki átt við að einstaklingur sem býr við heilsubrest og félagslegan skort eigi að sætta sig við ástandið heldur að leita leiða til að breyta lífi sínu til að hámarka getuna til að öðlast lífsgleði og lífshamingju. Þó margir hafi áhuga á að breyta lífi sínu getur það reynst erfitt og alls ekki augljóst hvar á að byrja. Langvarandi félagslegur skortur, heilsuleysi, áföll, missir og sorg geta haft áhrif á hæfni einstaklinga til að taka fyrstu skrefin í átt að betra lífi.

Meðal þeirra sem gert hefur rannsókn á lífsgæðum er læknirinn Sören Ventegodt sem veitir forstöðu rannsóknastofnun um lífsgæði í Danmörku, heimasíða www.fclk.dk. Niðurstaða rannsóknar sem náði til 10.000 manns sýndi að það var lítið samhengi milli lífshamingju og árstekna, þjóðfélagsstöðu, lífsstíls, hreyfingar, áfengisnotkunar, reykinga, matarvenja, menntunarstigs eða atvinnustöðu.

Það var aftur á móti mikið samhengi milli lífshamingju og tengsla við sjálfan sig, tengsla við maka, þ.m.t. ánægju með kynlífið, tengsla við vinina, upplifun af vinnunni, andlegu og líkamlegu heilbrigði.

Undanfarna áratugi hafa sjónir margra beinst að því að kenna fólki að skynja streitu og vanlíðan og önnur einkenni erfiðra samskipta og benda á aðferðir til að bregðast við þeim. Nýrri kenningar leggja meiri áherslu á að fólk læri að lesa eigin tilfinningar, geri sér grein fyrir ástandi sínu, setji sér lífsgæðamarkmið og beini sjónum að því að auka lífsgæðin með breyttu hugsanamynstri í stað þess að einblína á streituvaldana. Þannig geti einstaklingurinn þróað með sér jákvæðari lífssýn og kærleika sem auðveldar honum að lágmarka áhrif erfiðra aðstæðna. Einstaklingurinn öðlast betri tengsl við sjálfan sig og aðra og hefur jákvæð gagnvirk áhrif í samskiptum og á umhverfi sitt.

GUNNHILDUR

VALDIMARSDÓTTIR,

hjúkrunarfræðingur og kennari.

Frá Gunnhildi Valdimarsdóttur: