UNDANFARNA mánuði hafa sjálfstæðismenn í borginni lýst yfir áhyggjum sínum yfir þróun mála í Geldinganesi og eins vilja þeirra að þar rísi falleg og myndarleg íbúabyggð.

UNDANFARNA mánuði hafa sjálfstæðismenn í borginni lýst yfir áhyggjum sínum yfir þróun mála í Geldinganesi og eins vilja þeirra að þar rísi falleg og myndarleg íbúabyggð. Í síðasta sunnudagsblaði Morgunblaðsins áréttar Björn Bjarnason þessa skoðun og því er mér spurn hvort sjálfstæðismenn hafa tekið afstöðu með Landsímalóðina hér í Grafarvogi? Þar er í uppsiglingu eitt allsherjar skipulagsklúður um þétta og háreista byggð mitt í lágreistri og dreifðri byggð ásamt auknu umferðarálagi fyrir íbúa við þessa lóð.

Íbúar Rimahverfis hafa lýst yfir áhyggjum yfir þessu skipulagsklúðri og óskum um áframhaldandi dreifða íbúabyggð með grænum svæðum og sparkvöllum fyrir börn borgarinnar, en eins og flestir vita eru þau svæði ekki of mörg í borginni miðað við margar erlendar borgir þar sem grænu svæðin skipta máli.

Það væri gaman að vita hvaða skoðun sjálfstæðismenn hafa á þessu skipulagsmáli því það auðveldar mörgum valið þegar að kosningum kemur.

Með ósk um betri og öðruvísi borg.

Íbúi í Rimahverfi.