HEILDSÖLUBAKARÍIÐ við Grensásveg hefur farið þess á leit í erindi til Samkeppnisstofnunar að fyrirtækið Kjarnavörur hf. verði leyst upp vegna einokunaraðstöðu á viðskiptum með smjörlíki hér á landi, bæði til matvöruframleiðslu og heimilisnota. Haukur L.

HEILDSÖLUBAKARÍIÐ við Grensásveg hefur farið þess á leit í erindi til Samkeppnisstofnunar að fyrirtækið Kjarnavörur hf. verði leyst upp vegna einokunaraðstöðu á viðskiptum með smjörlíki hér á landi, bæði til matvöruframleiðslu og heimilisnota. Haukur L. Hauksson, bakarameistari hjá Heildsölubakaríinu, sagði við Morgunblaðið að hann hefði beðið í mánuð eftir sams konar erindi frá Landssambandi bakarameistara en þar sem ekkert hefði gerst hefði hann ákveðið að gera eitthvað sjálfur í málinu.

Fram kemur í erindi Hauks til Samkeppnisstofnunar að fyrir u.þ.b. mánuði hafi Kjarnavörur hf. keypt smjörlíkisgerð Sólar-Víkings hf. og náð þar með markaðsráðandi stöðu í sölu á svokölluðu rúllusmjörlíki, sem m.a. er notað í vínarbrauðsgerð. Fyrirtækið sé einnig með markaðsráðandi stöðu í sölu hrærismjörlíkis og smjörlíkis til neytenda. Loks segir í erindinu:

"Í ljósi þessa fer ég því fram á það við Samkeppnisstofnun að þetta fyrirtæki verði leyst í sundur eða að öðrum kosti beiti Samkeppnisstofnun sér fyrir því að tollar og vörugjöld verði felld niður af innfluttu smjörlíki, svo að jafnvægis á þessum markaði sé gætt."

Guðmundur Sigurðsson hjá Samkeppnisstofnun staðfesti í samtali við Morgunblaðið að erindið hefði borist en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um innihald þess, sagði að málið yrði skoðað eins fljótt og auðið væri.