Alda Sigmundsdóttir
Alda Sigmundsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÍSLENSKUR þýðandi, Alda Sigmundsdóttir, hefur leitað til lögfræðinga vegna samskipta sinna við Ólaf Jóhann Ólafsson rithöfund, og útgáfufyrirtæki hans, Eddu - miðlun og útgáfu.

ÍSLENSKUR þýðandi, Alda Sigmundsdóttir, hefur leitað til lögfræðinga vegna samskipta sinna við Ólaf Jóhann Ólafsson rithöfund, og útgáfufyrirtæki hans, Eddu - miðlun og útgáfu. Alda segir höfundarrétt sinn sem þýðanda leikritsins Sniglaveislunnar af íslensku yfir á ensku, hafa verið fótum troðinn. "Í fyrravor var ég fengin til að þýða íslenska leikgerð Sniglaveislunnar yfir á ensku. Það var Pétur Már Ólafsson hjá Eddu sem hafði samband við mig. Íslensku leikgerðina af skáldsögunni höfðu Ólafur Jóhann og Sigurður Hróarsson gert, en þá hafði skáldsagan einnig verið þýdd yfir á ensku af James Wesneski. Pétur Már talaði um að þetta yrði lítið mál, lítið annað en "cut and paste" þar sem ég gæti haft enska þýðingu skáldsögunnar til hliðsjónar og "klippt" setningar úr henni og "límt" inn í þýðingu mína á leikgerðinni. Ég sagði honum strax að þetta yrði meira en "cut and paste", vegna þess að maður tekur ekki bara skáldsögu, færir yfir í handritsform og kallar það leikrit. Það þarf að endurvinna textann og gera hann þjálli, þannig að hann sé eins og raunverulegt samtal.

Ég fékk þó í hendur enska þýðingu skáldsögunnar auk íslensku leikgerðarinnar og hófst handa við að þýða. Ég þurfti að vinna þetta hratt, og var með verkin í tölvutæku formi, og notaði það sem hægt var að nota úr ensku þýðingunni á skáldsögunni, en hluta þurfti ég að endurskrifa, vegna þess að skáldsagan og leikgerð hennar eru einfaldlega ekki eins. Ég skilaði svo verkinu á tilsettum tíma."

Alda segir að forsvarsmenn Eddu hafi verið ánægðir með þýðingu hennar á Sniglaveislunni, og nokkrum vikum síðar fékk hún annað leikrit eftir Ólaf Jóhann frá útgáfufyrirtækinu til að þýða.

Vandkvæðum bundið að fá að lesa handrit verksins

Alda vissi svo ekkert um afdrif þýðingar sinnar á Sniglaveislunni, fyrr en hún las frétt í Morgunblaðinu í haust þess efnis, að til stæði að setja verkið upp á sviði í London. "Mín fyrsta hugsun var auðvitað spurningin um það hvort þetta væri mín þýðing á verkinu. Ég hringdi í Pétur Má hjá Eddu, en það náðist ekki samband við hann, þannig að ég lagði inn skilaboð til hans um að hringja í mig, sem hann gerði ekki. Ég hafði þá samband við Rithöfundasambandið til að kanna hver mín réttarstaða væri, og var þá bent á að hafa samband við Ragnar Aðalsteinsson lögmann, og það gerði ég. Hann sagði að ég yrði að ganga úr skugga um það að þetta væri mín þýðing, þannig að ég fór aftur af stað að reyna að ná í Pétur Má. Það tókst um síðir. Ég sagði honum að ég hefði lesið þessa frétt, og að mér léki forvitni á að vita hvort það væri mín þýðing sem væri verið að nota. Hann sagði fyrst að þetta væri ekki mín þýðing og benti á að ég hefði haft enska þýðingu skáldsögunnar til hliðsjónar. Ég sagði honum að ég hlyti samt að eiga eitthvað í þýðingunni og bað um leyfi að fá að sjá handritið. Það kom löng þögn þar til hann sagði: "Upp á?" Ég svaraði að það væri upp á það að fá að sjá hvort þetta væri mín þýðing. Hann svaraði því að hann þyrfti þá að hafa samband við Ólaf Jóhann. Pétur Már sagðist myndu hafa samband við mig aftur. Það gerði hann ekki. Þegar ég hringdi aftur eftir nokkra daga, sagði Pétur Már að hann hefði náð í Ólaf Jóhann, en að þetta væri ekki sama verkið lengur, það væri búið að umturna því öllu. Ég sagði að þá væri ekkert því til fyrirstöðu að ég fengi að sjá handritið. Ég ítrekaði að ég vildi bara ganga úr skugga um það að þetta væri satt, því Ólafur Jóhann hefði orðið uppvís að því áður að brjóta á réttindum þýðenda, og því vildi ég fá að staðfesta þetta sjálf. Hann lofaði að hringja í Ólaf Jóhann, gerði það og hafði samband við mig aftur nú um jólin og segir mér að handritið sé vestanhafs og Ólafur Jóhann kominn til Íslands, og því sé það enn vandkvæðum bundið að ég fái að sjá handritið. Hann sagðist þó myndu hafa samband við mig aftur á nýju ári. Ég fékk svo tölvupóst þar sem sagði að það væri í lagi að ég fengi að skoða handritið, en að það mætti ekki fara út úr húsi."

"Þýðinguna má ekki nota án míns samþykkis"

Þegar þarna var komið sögu fór Alda í húsakynni Eddu til að skoða umrætt handrit að Sniglaveislunni. Meðferðis hafði hún eigin þýðingu. Hún bar þýðingarnar saman frá orði til orðs og merkti við hjá sér þá staði þar sem breytingar höfðu verið gerðar. "Allt þetta ferli hefur einkennst af því að Edda hefur reynt að gera mjög lítið úr mínum þætti þýðingarinnar, þeir hafa sett leikreglurnar í þessu máli, og ég hef ekki getað brugðist við öðru vísi en á þeirra forsendum, eins og það að ég skuli ekki hafa getað fengið að lesa handritið yfir annars staðar en inni á gafli hjá þeim."

Niðurstaða Öldu var sú, að um tveir þriðju hlutar handritsins væru hennar þýðing óbreytt. Niðurlagi verksins hafði verið breytt, og eins hafði nýjum setningum verið skotið inn í textann á nokkrum stöðum. "Þar með var það ljóst að sú fullyrðing að þetta væri "ekki sama verkið lengur", stóðst ekki. Pétur Már hafði þó sagt mér áður, að hann hefði skoðað þetta sjálfur og að honum sýndist minn hluti þýðingarinnar vera um fimmtungur. Þar með var hann þó búinn að viðurkenna að ég ætti rétt í þýðingunni. Ég talaði aftur við Ragnar Aðalsteinsson sem sagði mér að það skipti ekki máli hversu lítill eða stór hlutur minn í þýðingunni væri; það mætti ekki nota hann án míns samþykkis. Það var búið að greiða mér fyrir mína vinnu, en það hafði aldrei verið samið um að ég afsalaði mér höfundarrétti mínum að þýðingunni. Ragnar bað mig að senda sér greinargerð um málið sem ég gerði, en því miður hafði hann ekki tíma til að sinna málinu strax.

Vildi ljúka málinu fljótt

Þá birtist sú frétt í dagblöðunum, að hugsanlega hefði Ólafur Jóhann brotið á höfundarrétti amerísku skáldkonunnar M.F.K. Fisher með því að nota texta úr bók hennar án þess að geta þess. Þar var talað um tvær setningar, en ég hef kynnt mér málið og veit að kaflinn sem um ræðir er nokkru stærri; - allt að tvær blaðsíður. Þegar þetta komst í hámæli hafði Pétur Már hjá Eddu loks samband við mig, og það var í fyrsta sinn sem frumkvæði að samskiptum um mitt mál kom þaðan. Pétur Már spurði mig hvað ég ætlaðist fyrir með Sniglaveisluna og ég sagði honum að mál mitt væri hjá lögmanni mínum og að ég biði eftir mati hans. Ég sagði Pétri Má að lögmaðurinn teldi að ég ætti þarna rétt. Pétri Má var þá í mun að hægt væri að ljúka málinu fljótt og sagði við mig að það hefði nú verið betra ef ég hefði borið mitt mál upp fyrr. Ég taldi engan veginn við mig að sakast um það. Þeir hefðu átt að tala við mig strax, en auk þess höfðu þeir sjálfir tafið það að ég fengi að bera saman handritin. Það leið ekki langur tími þar til Eddumenn voru búnir að hafa samband við Ragnar Aðalsteinsson, og bjóða honum fyrir mína hönd 85.000 króna viðbótargreiðslu, sem mér fannst ekki óeðlileg, enda hafði ég þá borið mig upp við Bernard Scudder, sem þýddi á sínum tíma annað verk eftir Ólaf Jóhann, en lenti einnig í því að höfundarréttar hans á þýðingunni var ekki getið í enskri útgáfu verksins. Ragnar Aðalsteinsson ráðlagði mér að ganga að þessu samkomulagi og ég vildi gjarnan gera það.

"Vildi njóta tjáningar- frelsis míns"

Þegar mér barst svo samkomulagið til undirritunar var komið þar inn ákvæði um trúnað; - að ég yrði að þegja um málið. Þetta vildi ég ekki samþykkja og taldi mig mega njóta tjáningarfrelsis míns eins og hver önnur manneskja. Þá var mér boðið nýtt samkomulag, þar sem óskað var eftir því að ég afsalaði mér öllum höfundarrétti að þýðingunni í hendur Ólafi Jóhanni Ólafssyni fyrir 85.000 krónur, en þegði auk þess um málið í sex mánuði. Orðalag samkomulagsins var yfirgengilegt og niðrandi, og lítið gert úr mínu framlagi til verksins. Mér var misboðið. Tveimur dögum seinna birtist svo furðuleg frétt á baksíðu DV, þar sem sagt var að verið væri að æfa leikritið í London, og að ýmsir hefðu komið að þýðingu þess, meðal annarra James Wesneski, Alda Sigmundsdóttir og Victoria Cribb. James er sá sem þýddi skáldsöguna yfir á ensku, og Victoria las hans texta yfir. Mér fannst Ólafur Jóhann stíga þarna fram eins og hvítþveginn engill og nefna nafn mitt eins og um einhverja baktryggingu væri að ræða, því þetta var þvert á allt það sem búið var að biðja mig um að afsala mér."

Mál Öldu er nú í biðstöðu meðan hún íhugar hvernig hún lætur reyna á rétt sinn. Hún hefur leitað til annars sérfræðings í höfundarrétti til að vera viss um stöðu sína. Með afsali höfundarréttar á þýðingu sinni væri Alda að gefa eftir þann rétt sinn að nafns hennar sem þýðanda væri nokkurs staðar getið; hvorki við útgáfu leikritsins né annars staðar. Alda telur víst að ósk Eddu - miðlunar og útgáfu, um að hún skrifi nú þegar undir samkomulag um afsal höfundarréttarins tengist því að eftir örfáa daga verður verkið frumsýnt á sviði í London með þekktum leikara, David Warner, í aðalhlutverki. Hún telur að með því að bjóða henni samkomulag sé verið að reyna að koma í veg fyrir að mál hennar komist í hámæli á svo viðkvæmum tíma.

Útgefandinn taldi ensku þýðinguna verk Ólafs Jóhanns

Alda nefndi Bernard Scudder á nafn, en hann tók að sér á sínum tíma að þýða skáldsögu Ólafs Jóhanns, Fyrirgefningu syndanna. Þegar bókin kom út í Bandaríkjunum undraðist Bernard að nafn sitt væri hvergi nefnt í umfjöllun fjölmiðla um verkið. Þegar að var gáð var hans hvergi getið sem þýðanda bókarinnar, þannig að enskumælandi lesandi gat ályktað að verkið hefði annað hvort verið samið af Ólafi Jóhanni á ensku, eða þýtt af honum sjálfum. Þegar Bernard hafði samband við útgefanda ensku þýðingarinnar, Random House, töldu menn þar á bæ að Ólafur Jóhann hefði samið verkið á ensku. Bernard Scudder segir að mál sitt hafi þó verið auðsótt, og að full sátt hafi náðst um rétt hans, en í samkomulagi hans hefði falist að í næstu útgáfu bókarinnar á ensku, yrði hans getið sem þýðanda hennar.

Bernard Scudder segist ekkert eiga við Eddu að sakast, en segir þetta þó tilefni til að árétta almennt rétt þýðenda skáldverka, sem víða sé enn fótum troðinn. Á síðustu árum hafi margt þó breyst til batnaðar, og farið sé að veita sérstakar viðurkenningar og verðlaun fyrir þýðingar á skáldverkum.

Höfundi þýðingar ber réttur til greiðslu og nafngreiningar

Í september á síðasta ári birtist frétt í Morgunblaðinu þess efnis að ensk þýðing bókar Ólafs Jóhanns, Slóðar fiðrildanna, hafi verið tilnefnd til alþjóðlegu IMPAC verðlaunanna í Dyflinni. Nafn þýðanda bókarinnar kom hvergi fram og þýðingin því eignuð Ólafi Jóhanni. Þau Alda og Bernard staðfesta að í því tilviki hafi þýðandi verksins afsalað sér höfundarrétti og því sé verkið alfarið eignað Ólafi Jóhanni. Slíkt getur þó gerst með fullum og frjálsum vilja þýðenda eins og fram kemur hjá Hróbjarti Jónatanssyni hæstaréttarlögmanni, sem er sérfræðingur um hugverkarétt.

"Þýðing á bókmenntaverki af einu tungumáli yfir á annað telst vera afleitt verk og í samræmi við meginregluna heldur höfundur frumverksins sínum höfundarréttindum en þýðandinn hinsvegar þeim rétti sem tengist sérstaklega þýðingunni sem slíkri. Hér er einkum um að ræða þóknun fyrir notkun á þýðingunni og svo réttinn til þess að leggja nafn sitt við þýðingu verksins. En hér er hinsvegar, að mínu mati, um að ræða "þunnan" rétt að því leyti að frumhöfundur getur, ef hann kýs svo, fengið annan til að þýða verkið aftur og er þá ekki bundinn við að nota eldri þýðinguna. Að auki er stundum erfitt að þýða hlutina nema á einn veg og þá gefur augaleið að allir þýðendur hljóta að þýða með sama hætti og enginn getur gert tilkall til slíkrar þýðingar. Annað kann að gilda um þýðingu sem ber með sér "bókmenntalegan blæ" ef svo má segja. Þýðandi getur því ekki, að mínu viti, krafist þess að hans þýðingu skuli nota en sé hún hinsvegar notuð ber honum réttur til greiðslna og nafngreiningar."

Afsal höfundarréttar ekki óþekkt í Bandaríkjunum

Um það hvort samningar um afsal réttinda tíðkist í bókmenntaheiminum, segir Hróbjartur að samningafrelsið gildi á þessu sviði og allur gangur sé á því hvernig menn ráðstafi réttindum að þessu leyti sín í milli. Hafa megi í huga að í Bandaríkjunum, þar sem útgáfa á verkum Ólafs eigi sér meðal annars stað, tíðkist að aðstoðarfólk við ritverk afsali sér réttindum af markaðsástæðum. Þar sé höfundarréttur keyptur og seldur eins og hver önnur vara og algengt sé að svokallaðir "ghost writers" eða hulduhöfundar séu fengnir til að skrifa bækur, gjarnan fyrir frægt fólk, en komi aldrei fram sem slíkir, heldur eftirláti kaupandanum höfundarheiðurinn og tekjur af sölu bókanna, sem ráðist hvort eð er oft af frægð viðkomandi "höfunda" fremur en innihaldi bókanna. Í ljósi markaðssetningar og sölu með bækur sé afsal réttinda af því tagi sem farið hafi verið fram á við Öldu ekki óeðlilegt. Samkomulag beggja aðila um slíkt verði þó að liggja fyrir.