Slökkviliðsmenn að störfum við Sorpeyðingarstöð Suðurnesja.
Slökkviliðsmenn að störfum við Sorpeyðingarstöð Suðurnesja.
ELDUR kom upp í sorpgryfju við Sorpeyðingarstöð Suðurnesja við Hafnaveg á tíunda tímanum í gærkvöldi. Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja fór á staðinn með slökkvibíl og tankbíl ásamt því að Slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli mætti á staðinn með einn bíl.

ELDUR kom upp í sorpgryfju við Sorpeyðingarstöð Suðurnesja við Hafnaveg á tíunda tímanum í gærkvöldi. Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja fór á staðinn með slökkvibíl og tankbíl ásamt því að Slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli mætti á staðinn með einn bíl.

Að sögn varðstjóra hjá Brunavörnum Suðurnesja var um minniháttar eldsvoða að ræða og tókst að ráða niðurlögum hans fljótt eftir að slökkviliðin komu á staðinn. Svo virðist sem rekja megi eldsupptök til sorpfarms sem sturtað var í gryfjuna, en hugsanlega hefur verið glóð í farminum. Það tók síðan nokkurn tíma að slökkva í allri glóð í sorpinu.

Bruni á Svalbarðseyri og í Ölfusi

Um kvöldmatarleytið í gærkvöldi var slökkviliðið á Akureyri kallað að húsi á Svalbarðseyri en þar hafði kviknað í út frá feiti í potti. Húsráðendur náðu að slökkva eldinn og þurfti slökkviliðið aðeins að reykræsta húsið. Engan sakaði en húsfreyjan hafði brugðið sér frá bakstri til að fara í símann og gleymt pottinum á heitri hellunni.

Á tíunda tímanum var Slökkvilið Árborgar kvatt að bænum Stuðlum í Ölfusi þar sem kviknað hafði í bílskúr, sem brann til grunna.