Miroslav Klose fagnar með heljarstökki eftir að hafa skorað annað af þremur mörkum sínum í stórsigri Þjóðverja, 7:1.
Miroslav Klose fagnar með heljarstökki eftir að hafa skorað annað af þremur mörkum sínum í stórsigri Þjóðverja, 7:1.
ÞJÓÐVERJAR, hæst skrifuðu mótherjar Íslendinga í næstu Evrópukeppni landsliða í knattspyrnu, sýndu heldur betur á sér klærnar í gærkvöld.

ÞJÓÐVERJAR, hæst skrifuðu mótherjar Íslendinga í næstu Evrópukeppni landsliða í knattspyrnu, sýndu heldur betur á sér klærnar í gærkvöld. Þeir skoruðu þá sjö mörk á aðeins 28 mínútum í síðari hálfleik og gjörsigruðu Ísraelsmenn, 7:1, í vináttulandsleik í Kaiserslautern.

Það benti fátt til þess að 25 þúsund áhorfendur fengju slíka markaveislu því staðan í hálfleik var 1:0, Ísraelsmönnum í hag. Mark þeirra var slysalegt sjálfsmark markvarðarins og fyrirliðans Olivers Kahns.

Miroslav Klose, leikmaður Kaiserslautern, fór á kostum á eigin heimavelli. Hann skoraði tvívegis á þremur mínútum í upphafi síðari hálfleiks og kom þýska liðinu heldur betur á bragðið. Dietmar Hamann, Klose, Oliver Bierhoff, Gerald Asamoah og Lars Ricken bættu við mörkum.

Klose er 23 ára gamall og lék aðeins sinn áttunda landsleik í gærkvöld. Fyrir tveimur árum lék hann í neðri deildum í Þýskalandi en nú eru vonir bundar við að hann leysi helsta vandamál þýska landsliðsins undanfarin misseri og skori mörkin sem fleyti liðinu langt í heimsmeistarakeppninni í sumar.

"Það væri stórkostlegt að vera mikilvægur hlekkur í liðinu í keppninni sem framundan er. Það er þó raunhæfara fyrir mig að stefna á að vera orðinn lykilmaður í landsliðinu í heimsmeistarakeppninni eftir fjögur ár," sagði Miroslav Klose eftir leikinn en þetta var fyrsti leikur hans í byrjunarliði Þýskalands. Hann er samt kominn með 5 mörk í þessum átta landsleikjum.

"Klose er leikmaður framtíðarinnar. Hann á eftir að verða okkur afar þýðingarmikill. Ég er mjög ánægður með leikinn, líka fyrri hálfleikinn þó við næðum ekki að skora þá," sagði landsliðsþjálfarinn Rudi Völler eftir leikinn.