KYLFINGARNIR Birgir Leifur Hafþórsson úr GL og Björgvin Sigurbergsson úr GK eru á leið til Afríku þar sem þeir keppa væntanlega báðir í tveimur mótum í áskorendamótaröðinni.

Fyrra mótið er í Kenýa og hefst það síðasta dag mánaðarins en hitt mótið, sem er í Zambíu, hefst 7. mars. "Birgir Leifur er öruggur inn á bæði mótin og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fæ að utan þá er nærri öruggt að ég kemst líka á þau bæði," sagði Björgvin í samtali við Morgunblaðið í gær. Hann sagði að keppendalisti fyrir mótin ætti að liggja fyrir hálfum mánuði fyrir mót og á því von á staðfestingu alveg á næstunni.

Þeir félagar gangast fyrir púttmóti á laugardaginn í Sportvangi þar sem menn geta komið og farið hring eða hringi. Mótið hefst klukkan 14 og stendur til klukkan 20 og kostar hringurinn 1.000 krónur. Búið er að fá styrktaraðila fyrir hverja holu og vonast Birgir Leifur og Björgvin til að kylfingar fjölmenni á laugardaginn og styrki þá til þátttöku í mótunum tveimur í Afríku. Verðlaun eru vegleg, sá sem sigrar fær til dæmis inneign fyrir golfferð til Írlands með Úrvali-Útsýn.

Björgvin sagðist búast við að nóg yrði að gera hjá sér í áskorendamótaröðinni í sumar en hann á von á að flytjast til Bretlands með vorinu og keppa á Master Card mótaröðinni þegar hann kemst ekki að á áskorendamótaröðinni.