HREPPSNEFND Vatnsleysustrandarhrepps hefur falið sveitarstjóra að senda eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga þau gögn sem nefndin óskaði eftir.
Eftirlitsnefndin taldi ljóst að fjárhagsstaða sveitarsjóðs Vatnsleysustrandarhrepps væri fremur alvarleg. Hún benti sérstaklega á miklar skuldir sveitarsjóðs sem námu í árslok 2000 liðlega 421 þúsund kr. á íbúa og peningaleg staða neikvæð um 343 þúsund kr. á mann. Þá var bent á að fjárfestingarútgjöld hefðu á árinu 2000 numið um það bil fimmfaldri framlegð ársins.
Skuldirnar lækka um 140 milljónir á næstu árum
Í bókun hreppsnefndar, þar sem erindi nefndarinnar var tekið fyrir, er þess látið getið að samkvæmt fjögurra ára fjárhagsáætlun muni skuldir sveitarfélagsins lækka um 140 milljónir á næstu árum.Jóhanna Reynisdóttir sveitarstjóri Vatnsleysustrandarhrepps segir að þegar ákveðið var að fara út í markaðsátak til að stækka byggðina og fjölga íbúum hafi legið fyrir að skuldirnar myndu aukast tímabundið. Útlit sé fyrir að skuldirnar verði aftur komnar í landsmeðaltal á árinu 2005.