Sannkölluð örtröð undravera var í verslunum Kringlunnar í gærmorgun enda veðrið ekki fýsilegt til tónleikahalds útivið, jafnvel þótt von væri á gotteríi að launum fyrir sönginn.
Sannkölluð örtröð undravera var í verslunum Kringlunnar í gærmorgun enda veðrið ekki fýsilegt til tónleikahalds útivið, jafnvel þótt von væri á gotteríi að launum fyrir sönginn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HELDUR viðraði hryssingslega á pöddur, púka og álfa í gærdag þegar krakkar í allra kvikinda líki brugðu á leik á árvissum öskudagsfagnaði. Veðrið aftraði því þó ekki að fjöldi furðuvera færi á kreik þótt margar þeirra kysu að halda sig innandyra.

HELDUR viðraði hryssingslega á pöddur, púka og álfa í gærdag þegar krakkar í allra kvikinda líki brugðu á leik á árvissum öskudagsfagnaði. Veðrið aftraði því þó ekki að fjöldi furðuvera færi á kreik þótt margar þeirra kysu að halda sig innandyra. Þannig var sannkölluð örtröð í Kringlunni strax um 10-leytið í gærdag og mátti heyra barnaraddir úr öllum hornum þar sem þær sungu sér inn gotterí sem venjulega hvarf beint ofan í stóran poka sem raddhafar báru með sér.

Starfsfólk verslana var önnum kafið við að leggja við hlustir fram eftir degi. Að því kom þó að heyrðist bak við búðarborðið: "Allt nammi búið" og mátti þá sjá krakkaskarann hverfa sem hendi væri veifað út úr viðkomandi verslun þaðan sem hann leitaði á önnur fengsælli mið.

Almennt virðast furðuverur vatns- og rokfælnar því fátt var um manninn í miðbæ Reykjavíkur. Sömuleiðis brugðu ýmsir á það ráð að halda öskudagsskemmtanir innivið þar sem kötturinn var sleginn úr tunnunni og veitti ekkert af kröftum í kögglunum við þá iðju.