Sigurjón Pétursson fæddist á Sauðárkróki 26. október 1937. Hann lést af slysförum 10. janúar síðastliðinn og fór útför hans fram frá Hallgrímskirkju 21. janúar.

Þegar ég kom til vinnu í Kennarahúsinu 11. janúar sátu þeir sem komnir voru mjög hnípnir á kaffistofunni. Mér brá í brún. En ég fékk fljótt skýringu á því þegar mér var tjáð að Sigurjón Pétursson hefði beðið bana í umferðarslysi kvöldið áður.

Sigurjóni kynnt ég fyrst að ráði við gerð síðustu kjarasamninga Kennarasambands Íslands, sem voru undirritaðir fyrir réttu ári. Sigurjón hafði verið ráðinn sem grunnskólafulltrúi hjá Samb. ísl. sveitarfélaga þegar grunnskólinn fluttist til sveitarfélaganna. Margir skólamenn voru með efasemdir um þessa ráðningu þar sem Sigurjón hafði ekki haft sérstök afskipti af skólamálum. Það kom hins vegar fljótt í ljós að maðurinn hafði þá eiginleika til að bera að hann yrði fljótur að átta sig á málefnum skólanna og sú varð raunin. Það vakti raunar undrun skólamanna hve yfirgripsmikil þekking hans á skólamálum varð á stuttum tíma. Þar naut Sigurjón mikillar reynslu sinnar sem sveitarstjórnarmaður en hitt þó ekki síður hve gjörhugul vinnubrögð hann notaði.

Sem starfsmaður Skólastjórafélags Íslands hafði ég haft nokkur samskipti við Sigurjón áður en til síðustu kjarsamninga kom, bæði bréflega og í gegnum síma. En í samningagerðinni og ekki síður á kynningarfundum sem fylgdu í kjölfarið urðu kynnin nánari.

Það var auðfundið að Sigurjóni var mjög umhugað að samskipti skólanna við sveitarfélögin gætu gengið vel fyrir sig og breytir engu um það þótt við höfum ekki alltaf verið sammála um túlkun samninga. Skólastjórum ekki síður en sveitarfélögunum var það ómetanlegt að hafa í forsvari sveitarfélaganna mann sem sett hafði sig inn í allar aðstæður og gat án nokkurra fordóma rætt stöðu mála. Ekki síst er þetta ómetanlegt þegar jafn miklar breytingar er um að ræða eins og fólust í nefndum kjarasamningi. Þarna var í raun samið um nýtt starfsumhverfi og því líklegt að túlkun á ýmsum þáttum þeirra yrði viðkvæm. Þarna naut starfsreynsla Sigurjóns sín vel. Sveitarfélögin voru í fáum orðum sagt afar heppin með þessa ráðningu og skólastarfi í landinu mjög mikill missir og eftirsjá að hans nýtur ekki lengur við.

Á þeim ferðalögum sem ég var í með Sigurjóni vegna kynningarfunda var hann mjög skemmtilegur og margfróður eins og þeir hafa tjáð sig um sem best þekktu hann. Það er ávinningur fyrir hvern og einn að kynnast slíkum mönnum. Með þessum fáu orðum vil ég fyrir hönd Skólastjórafélags Íslands þakka Sigurjóni fyrir samstarfið og votta honum virðingu. Eiginkonu og öðrum ástvinum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Kári Arnórsson.

Kári Arnórsson.