Helga Þuríður Þorgeirsdóttir fæddist í Keflavík 9. júlí 1950. Hún lést 31. janúar síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Grafarvogskirkju 7. febrúar.

Nú andar næturblær um bláa voga. Við bleikan himin daprar stjörnur loga. Og þar, sem forðum vor í sefi söng nú svífur vetrarnóttin dimm og löng.

Elsku vinkona. Við nágrannar þínir í Baughúsum 36 áttum því láni að fagna að kynnast þér og langar að þakka fyrir samfylgdina síðastliðin áratug, tíma sem var því miður allt of stuttur. Fyrstu árin einkenndust kynni okkar af sameiginlegu átaki við húsbyggingar og barnauppeldi og síðan við áhugamál eins og garðrækt og ferðalög. Vináttusambandið óx með ári hverju á milli húsanna okkar og ávallt mættum við sama hlýja, skilningsríka og jákvæða viðmótinu hjá þér hvernig sem á stóð. Ekki breyttist það neitt eftir að ljóst varð að illkynja sjúkdómur hafði lagst á þig.

Þá sýndir þú æðruleysi og baráttuvilja sem seint mun gleymast.

Baráttan og viljinn við að sigrast á sjúkdómnum sýndu okkur hvílíkan innri styrk þú hafðir að geyma. Í veikindunum naustu líka einstakrar umhyggju og ástúðar frá Birni eiginmanni þínum og börnum, sem stóðu með þér eins og klettar. Við munum sakna þín, kæra vinkona, í ferðalögunum, við garðsláttinn og arfatínsluna, við götugrillin í Baughúsum og við samverustundir á síðkvöldum. Gatan okkar er þögul. Við munum minnast þín með harm í hjarta sem horfins vinar og einstakrar manneskju um leið og við vitum að þú hvílir í friði. Orð stórskáldsins Tómasar Guðmundssonar úr kvæðinu "Nú andar næturblær" lýsa huga okkar.

Nú andar næturblær um bláa voga.

Við bleikan himin daprar stjörnur loga.

Og þar, sem forðum vor í sefi söng

nú svífur vetrarnóttin dimm og löng.

Kæru vinir í Baughúsum 38, Björn, Anna, Kristín og Bjarki. Við vottun ykkur okkar dýpstu samúð vegna fráfalls Helgu um leið og við horfum með ykkur fram á veginn því að eftir dimma nótt kemur nýr dagur.

Ykkar vinir úr Baughúsum 36,

Egill, Vigdís, Arnar, Magnús og Páll.

Það eru forréttindi að fá að vaxa og þroskast með góðum bekkjarfélögum á viðkvæmum unglingsárum. F-klassen eins og bekkurinn var jafnan nefndur var einn af mörgum í Kennaraskóla Íslands. Þetta var á þeim árum þegar Kennaraskólinn útskrifaði stærstu árgangana. Nemendur í F-klassen útskrifuðust vorið 1971. Þetta var ærslafulli bekkurinn í árganginum, bekkurinn sem hélt mikið hópinn og skemmti sér svo gustaði yfir aðra. Og eftir alla þessa áratugi hittast bekkjarfélagar og yngjast um marga áratugi um leið og gamli tíminn er rifjaður upp. Það er hræðilega sárt að horfa á eftir félögum deyja langt um aldur fram. Þó svo vitað væri um alvarleg veikindi Helgu trúðu menn að hún og læknavísindin hefðu sigur. Hún átti svo mikið eftir og var svo lífsglöð.

Helga var þessi ljúfi og góði félagi sem gaf sér alltaf tíma til að hlusta á aðra og velta tilverunni fyrir sér. Hún varð snemma sjálfstæð og hafði mótaðar skoðanir á öllu. Helga var afar nákvæm og skilaði sinni vinnu alltaf óaðfinnanlega. Helga var alltaf mesta skvísan eins og það hét í þá daga og hún vissi nákvæmlega hvað var í tísku hverju sinni og var smekkvísi hennar viðbrugðið. Hún hafði áhrif á okkur öll með sínum góða smekk, vandvirkni, yfirvegun, heiðarleika, ljúfmennsku og góðum gildum. Við sitjum hljóð og hörmum að sjá á bak Helgu.

Við sendum Birni og einstaklega mannvænlegum börnum þeirra okkar einlægustu samúðarkveðjur. Orð mega sín lítils en ef við hugsum um þá einstöku yfirvegun, æðruleysi og hlýju sem einkenndi Helgu hjálpar það kannski við að stíga skrefin fram á við, án elsku Helgu okkar sem við söknum öll.

F-bekkurinn í Kennó '71.

Móðursystir okkar, Helga Þ. Þorgeirsdóttir, var okkur systrunum afar kær. Hún var fyrirmynd okkar, vitur kona, hreinskiptin og kærleiksrík. Við vorum stoltar af Helgu frænku og dáðumst að hæfileikum hennar og mannkostum.

Helga var móður okkar, Arndísi, ætíð góð systir. Stúdentsmyndin af Helgu í fjölskyldualbúminu var að okkar mati af fegurstu konu sem við höfðum augum litið. Það sama á við um rithönd hennar, sem var einstaklega falleg. Okkur systrunum og börnum okkar sýndi Helga ætíð ástúð og einlægan áhuga.

Í æskuminningum okkar sat Helga ósjaldan í eldhúsinu hjá mömmu og spjallaði, okkur til mikillar ánægju. Þá stóðum við systurnar við ísskápinn og hlustuðum á það sem þær systur ræddu. Helga var fróð og hafði alltaf frá einhverju athyglisverðu að segja enda var alltaf gefandi og skemmtilegt að tala við Helgu um lífið og tilveruna. Hún var hluti af tilveru okkar enda náin systir og vinur móður okkar, sem kveður nú kæra systur sína með söknuðu.

Helga var gift Birni Jóhannessyni og eignuðust þau þrjú börn, Bjarka, Kristínu og Önnu. Í minningunni er svo stutt síðan við dáðumst að fegurð Helgu og gleði á brúðkaupsdegi hennar og hamingjunni þegar börnin þrjú fæddust. Það er bjart yfir minningum um Helgu. Allt sem hún tók sér fyrir hendur var gert af fegurð og natni og ber þar sérstaklega að nefna umhyggju hennar fyrir börnunum þremur, sem hún reyndist ætíð hin besta móðir. Ást hennar og umhyggja fyrir þeim verður þeim dýrmætt veganesti í framtíðinni.

Það hreinlega geislaði af Helgu þegar hún talaði um börnin sín þrjú, sem hún elskaði svo heitt. Í veikindum hennar dáðumst við að því hvernig Björn og börnin vöfðu Helgu umhyggju og kærleika. Enda trúðum við því öll að Helga ætti eftir að sigrast á veikindum sínum með hjálp þeirra. Hún sýndi þá fádæma styrk og æðruleysi.

Helga kom ætíð fram við okkur systur með væntumþykju og virðingu enda mátum við mikils hrós hennar og góð ráð. Við viljum þakka Helgu fyrir allt sem hún hefur gefið okkur systrunum og börnum okkar. Einnig þökkum við hversu góð systir hún var móður okkar og vinur foreldra okkar alla tíð. Við viljum votta fjölskyldu Helgu; Birni, Bjarka, Kristínu og Önnu og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi allar fallegu minningarnar um góða eiginkonu og móður styrkja ykkur í sorg ykkar og söknuði.

Heiðruð sé minning Helgu Þ. Þorgeirsdóttur.

Margrét, Sigurbjörg, Kristín og Katrín Kristín Hallgrímsdætur.

F-bekkurinn í Kennó '71.