Anna Helga Þorvarðsdóttir fæddist í Miðhúsum í Garði 20. nóvember 1926. Hún lést á dvalar-og hjúkrunarheimilinu Grund 4. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Þórunn Sigríður Þórðardóttir húsmóðir, f. 4. janúar 1885, d. 25. september 1956, og Þorvarður Helgason bóndi, f. 12. júlí 1874, d. 18. desember 1949. Systkini Önnu eru: 1) Þórir Helgi, f. 31. desember 1905, d. 6. febrúar 1929. 2) Aðalheiður, f. 4. desember 1907, d. 27. maí 1984, maki Kristján Gunnarsson, f. 13. febrúar 1903, d. 30. júní 1986, þau eignuðust fimm börn, Bergþóru, f. 1929, d. 1930, Hrefnu, Þóri, Hrein og Hönnu Gyðu. 3) Gunnlaugur, f. 9. júní 1909, d. 8. febrúar 1958. 4) Gísli, f. 15. október 1911, d. 25. mars 1958, maki Sigurborg Hansdóttir, f. 24. apríl 1914, d. 21 apríl 1989, þau eignuðust sex börn, Atla, f. 1936, d. sama ár, Þórunni Sigríði, f. 27. mars 1948, d. 30. október 1998, Einar, f. 2. desember 1952, d. 22. september 1986, Gerði og Gíslínu. 5) Hjalti, f. 13. feb 1915, maki Sigurveig Sigurðardóttir, f. 9. ágúst 1920, þau eignuðust fjögur börn, Sverri, Sigurð, Vigdísi Önnu og Þorvarð. 6) Sigurður, f. 14. mars 1917, d. 18. feb. 1998, maki Soffía Jónsdóttir, f. 6. apríl 1921. Þau eignuðust fjögur börn, Hjördísi, f. 3. ágúst 1946, d. 23. apríl 1960, Brynhildi, f. 29. apríl 1949, d. 11. ágúst 1994, Ingibjörgu og Helgu.

Anna Helga bjó alla sína ævi í Reykjavík og þar af í tæp 50 ár á Grund dvalar- og hjúkrunarheimili.

Útför Önnu Helgu fer fram frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Vegir okkar Önnu hafa legið saman um tæp 60 ár og fljótlega sagði hún mér að götur bernsku hennar hefðu legið víðs vegar um Reykjavík. Ég held að hún hafi nefnt 7 staði sem hún hafði búið á með foreldrum sínum og systkinum. Þetta fannst mér merkilegt enda nýkomin vestan af fjörðum þar sem slíkt þekktist ekki, en var háttur þess tíma í Reykjavík. Hún átti svo eftir að flytja um set tvisvar áður en hún flutti í kjölfar mömmu sinnar á Elli- og hjúkrunarheimilið Grund þar sem hún dvaldi síðan eða í tæp 50 ár. Það voru sannarlega gæfuspor sem Anna steig þegar hún flutti á Grund, bæði stjórnendur og starfsfólk sýndu henni skilning og umhyggju sem að sjálfsögðu hefir skilað sér til okkar sem stóðum henni nærri og fyrir það eru nú færðar kærar þakkir. Einnig vil ég fyrir hönd Önnu færa öllum vinunum sem hún eignaðist á Grund kærar kveðjur.

Anna átti 75 ára afmæli í haust og þá sá hún flest af sínu nánasta skylduliði og naut þess sýnilega mjög vel enda elsk að sínu fólki. Einnig átti hún fagnaðarstund með sínu heimilisfólki á Grund, þar sem auðvitað voru teknar margar myndir og ég sé ekki betur en ljóminn í augum hennar lýsi enn skærar þar, augun hennar Önnu leyndu aldrei neinu því hún varðveitti barnsaugun til hinsta dags.

Ég þakka Önnu minni lærdómsríka samferð og mæli þar einnig fyrir munn barna minna og barnabarna.

Soffía mágkona.

"Anna mín, má ég sjá," gall við í litlum strák, eins eða tveggja ára gömlum. Hann var að herma eftir ömmu sinni. Amman var að reyna að fá Önnu Helgu, mágkonu sína, til að máta kjól en hún hafði meiri áhuga á fíflalátunum í litla barninu sem faldi sig á bak við fataslána í búðinni og skaut stríðnislega fram höfðinu öðru hverju milli kjólanna.

Anna hafði gaman af að segja þessa sögu og hlæja góðlátlega að kjánaskapnum í litla stráknum þarna um árið. Litli strákurinn stækkaði og eignaðist þrjú yngri systkini. Systkinin ólust upp í nokkuð nánara sambandi við afasystur sína en sjálfsagt gengur og gerist. Anna sat til borðs með þeim öll aðfangadagskvöld, fyrst í Selvogsgrunni og síðan í Granaskjóli. Gaf þeim síðan jólagjafir sem hún hafði annaðhvort búið til sjálf eða keypt í búðinni á Grund. Það voru fallegar gjafir, gefnar af heilum hug.

Líf Önnu Helgu var nokkuð sérstakt. Hún fæddist inn í tíðaranda þar sem einkum var litið á þroskahefta sem olnbogabörn í samfélaginu. En lán Önnu Helgu var að eiga ávallt góða að, stóra bræður, systur, mágkonur, mág og systkinabörn. Fólk sem aðstoðaði hana eftir fremsta megni fram á hinsta dag. Þá var starfsfólk Elliheimilisins Grundar henni einstaklega gott allan þann tíma sem hún dvaldi þar. Anna skilur væntanlega eftir sig nokkurt tómarúm hjá fólkinu á Grund þar sem hún hafði búið í tæpa fimm áratugi alls, sjálfsagt lengur en nokkur önnur manneskja fyrr eða síðar.

Systkinin fjögur munu sakna Önnu Helgu frænku sinnar og ávallt minnast hennar með hlýhug.

Kæra Anna, við þökkum fyrir okkur.

Sigurður, Þórhallur,

Hjörvar og Soffía Hjördís.

Elsku Anna Helga. Þegar ég var lítil þá þekkti ég ekki neinn sem átti frænku eins og þig. En núna mörgum árum seinna þá finn ég hversu rík ég er vegna þessa. Ómeðvitað kenndir þú mér svo margt, svo sem að taka tillit til þeirra sem minna mega sín og að enginn hefur sagt okkur að lífið sé alltaf dans á rósum. Minningarnar um þig eru mér svo mikilvægar, stundum blés í seglin en oftast var logn.

Í 47 ár varst þú stór hluti af lífi mínu. Öll mín jól og afmælisdaga þína svo langt sem ég man átti ég með þér, fyrst heima hjá pabba, mömmu og systrum mínum og síðan á heimili okkar Óla og barnanna okkar sem þér þótti svo vænt um. Þú fylgdist vel með öllu skyldfólkinu þínu hvar sem var á landinu. Það var því ánægjuleg stund þegar þú hittir allt fólkið þitt á 75 ára afmælinu þínu 20. nóvember síðastliðinn.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að vera hjá þér rétt áður en þú kvaddir þennan heim. Þá töluðum við um fjölskylduna og þú baðst að heilsa öllum.

Kæru vinir á Grund dvalar- og hjúkrunarheimili. Um leið og ég kveð frænku mína langar mig að þakka ykkur öllum fyrir þá hlýju og umhyggju sem þið sýnduð Önnu Helgu.

Hvíl þú í friði.

Helga Sigurðardóttir.

Soffía mágkona.