Agnar Guðmundsson fæddist í Kaupmannahöfn 6. mars 1914. Hann lést á heimili dóttur sinnar í Reykjavík 31. janúar síðastliðinn og fór útför hans fram frá Dómkirkjunni 8. febrúar.

Mér verður títt hugsað til Agnars Guðmundssonar. Minningin um hann skipar stóran sess í huga mér, bæði hvað varðar æsku- og fullorðinsár mín.

Óhætt er að segja að Agnar hafi verið aðsópsmikill, enda maðurinn hávaxinn, þrekinn og myndarlegur. - Það var alls staðar eftir honum tekið.

Agnar bjó mestan hluta ævi sinnar í hinum eina sanna miðbæ Reykjavíkur. Hann var elstur í hópi sex systkina, fæddur í Danmörku, en fluttist ungur að árum til Reykjavíkur. Þar ólst hann upp hjá foreldrum og systkinum í hinu sögufræga húsi, Næpunni en mörgum þykir einmitt Næpan vera eitt af kennileitum borgarinnar. Agnar átti síðar eftir að fara margar ferðirnar milli Danmerkur og Íslands, en ferðalög urðu ríkur þáttur í lífi hans. Systkini hans dvöldust flest um langan tíma á erlendri grund, og þrjár systur hans festu þar rætur. Ef til vill hefur Agnar svalað útþrá sinni með siglingu um höfin blá, oft við ævintýralegar aðstæður, m.a. á hvalskipunum, enda varla hægt að segja að hvalveiðar séu hversdagslegt lifibrauð.

Á heimili þeirra Birnu, móðursystur minnar og Agnars í Skólastræti 1, voru ýmsir munir sem minntu á þann tíma, sérkennilegar þóttu mér hinar fallega slípuðu hvaltennur, sem víða gat að líta. Mér er heimilið og fjölskyldan "uppi á lofti" ákaflega minnisstæð. Á fyrsta áratug ævi minnar bjuggu foreldrar mínir, og við systkinin á neðri hæðinni í þessu gamla og hlýlega timburhúsi, en síðar fluttumst við yfir í næsta hús.

Ég man marrið, þegar Agnar gekk um gólf uppi á lofti, ég man eftir skipshundinum hans, Rex, stórum schaferhundi. Í þann tíð voru slíkir hundar sjaldséðir í Reykjavík. Ég man margar fyndnar og skemmtilegar sögur sem Agnar sagði af mönnum og málefnum og svipbrigðum hans þegar hann sagði frá. Röddin var hljómmikil. Ég man eftir smekklegum klæðaburði hans, en Agnar klæddist oftast ljósbrúnum khakifatnaði, sem fór honum afar vel.

Ég man líka þegar reiðarslagið dundi yfir, og Birnu var svipt burtu úr þessum heimi, langt um aldur fram. Síðar færðist aftur mikið líf í húsið, þegar börnin þeirra fjögur, Guðrún, Hans, Elín og Júlíus bjuggu þar um lengri eða skemmri tíma með fjölskyldum sínum.

Margar voru ferðir mínar upp á loft eða "út í hús", eftir að við fjölskyldan fluttumst yfir í næsta hús, ýmist til að gæta barnabarna Agnars eða til að hitta fjölskylduna.

Ég man ófáar samverustundir okkar Júlíusar, en við erum jafnaldrar og fylgdumst lengst af að í skóla.

Agnar var mér ávallt ákaflega góður. Hann gaf mér allsérstætt gælunafn sem hann bjó til úr nafninu mínu, sem aðeins örfáir þekkja. Nú er Agnar lagður af stað í enn eina ferðina, þangað sem svo margir ástvinir hans eru farnir á undan honum. Þessi ferð bíður okkar allra.

Mikill sjónarsviptir er að Agnari Guðmundssyni; fyrir mér og áreiðanlega mörgum öðrum stendur mannlíf miðbæjarins eftir, mun fátæklegra en áður var.

Ég og systkini mín, Áslaug, Pétur og Jens erum Agnari Guðmundssyni afar þakklát fyrir samfylgdina. Við og fjölskyldur okkar sendum börnum hans, tengdabörnum og barnabörnum hlýjar samúðarkveðjur. Minning hans lifir.

Margrét Guðrún Ormslev.

Við höfum nú kvatt hinstu kveðju mikinn sómamann, Agnar Guðmundsson skipstjóra. Hann lést eftir erfiða baráttu við banvænan sjúkdóm, áttatíu og sjö ára að aldri. Að baki er löng og giftudrjúg ævi umhyggjusams fjölskylduföður og fjölbreyttur, erilsamur starfsferill sem oft krafðist mikillar ábyrgðar, karlmennsku og æðruleysis.

Ég kynntist Agnari og konu hans, Birnu Petersen, í byrjun sjöunda áratugarins, við upphaf áratuga vináttu okkar Júlíusar, sonar þeirra. Hið glæsilega heimili þeirra hjóna við Skólastrætið stóð vinum barna þeirra opið og fyrr en varði var ég þar daglegur gestur. Birna var einstaklega elskuleg og vönduð manneskja en hún lést langt fyrir aldur fram, árið 1969, og varð Agnari mikill harmdauði.

Áður en Birna lést og á meðan Skólastræti 1 iðaði af lífi stórfjölskyldunnar, barna, tengdabarna og barnabarna kom Agnar okkur strákunum fyrir sjónir sem hinn strangi heimilisfaðir. Ég er ekki frá því að Júlli hafi gefið þessari ímynd okkar undir fótinn, enda var hann stoltur af föður sínum og sífellt að minna okkur á að hann ætti engan venjulegan föður. Agnar var nú einu sinni þjóðkunnur skipstjóri sem hafði staðið sína plikt á stríðsárunum og lent í sögufrægum svaðilförum. Okkur fannst sjálfsagt að slíkir garpar krefðust hlýðni og reglusemi, jafnt á heimili sínu, sem á skipsfjöl. En eftir að Birna lést, eldri systkini Júlíusar fluttu úr Skólastrætinu og ég kynntist Agnari betur varð mér ljóst að hann var sérlega umhyggjusamur faðir.

Mér hefur oft verið hugsað til þess hversu mjög við strákarnir reyndum á þolrif Agnars, einkum eftir að við vorum komnir í MR og farnir að kíkja út á lífið. Þá var heimili Júlla í þjóðbraut og því oft gestkvæmt þar um helgar. Þegar farið var að styttast ískyggilega í próf og Agnari þótti lífsgleðin og kæruleysið keyra úr hófi átti hann til að gefa tiltal. Því var að sjálfsögðu beint til Júlla en við hinir máttum vel taka það til okkar sem við átti. Við slíkar aðstæður var Agnar ekki að setja á langar tölur. Það var ekki hans háttur að teygja lopann. Hann sagði nokkur mjög vel valin orð, talaði hægt og skýrt og kvað fast að. Ef honum var mikið niðri fyrir áréttaði hann gjarnan mál sitt með því að byrja á eftirfarandi tveimur orðum: ,,Ég meina.'' Síðan kom ógnþrungin þögn, nokkurs konar gæsalappir. Þetta verkaði eins og rétttrúaður klerkur í kirkju sem þrumar yfir söfnuðinn: ,,Pistilinn skrifar.'' Síðan kom umvöndunin, hnitmiðuð, stutt og einföld en svo áhrifamikil í ógleymanlegri framsögn Agnars, að enginn gat efast um alvöru málsins. Ef honum ofbauð fíflagangurinn var hann snillingur í því að setja málin upp á svo einfaldan og kristaltæran hátt að hann hlaut að vera að tala við fávita: ,,Ég meina: Það eru bara tvær manngerðir í þessum heimi: Þeir sem eru á ferð og sjá vegg framundan og beygja frá - og hinir sem eru á ferð og sjá vegginn en beygja ekki. Ég meina: Ætliði að beygja eða ætliði á vegginn?'' Reyndar var Agnar svo einstök, áhrifamikil og stórbrotin persóna að honum verður aldrei lýst með orðum einum saman.

Ég hef líklega verið eini vinur Júlla sem fór á sjóinn á sumrin á mennta- og háskólaárunum. Við það óx ég í áliti hjá Agnari og Júlli fékk oft að heyra eftirfarandi athugasemd: ,,Viltu sjá Gunna Kjartans. Hann fer á sjó. Af hverju ferð þú ekki á sjó?'' En jafnframt því að vaxa í áliti hjá Agnari komst ég að raun um að hann var löngu orðið þjóðsagnapersóna hjá íslenskri sjómannastétt. Það var því ekki ónýtt fyrir strákhvolp með kringlótt gleraugu sem var að læra heimspeki í háskóla, að geta lætt því inn í umræðuna á fyrsta útstíminu að hann væri, þrátt fyrir allt, heimagangur hjá Agnari Guðmundssyni.

Með árunum varð samband okkar Agnars nánara. Júlli var búsettur í Danmörku um nokkurra ára skeið og þá átti Agnar það til að bjóða mér í heimsókn sem ég þáði með þökkum. Hann var hættur að gefa tiltal en var óspar á föðurlegar ráðleggingar og alltaf jafn óborganlega skemmtilegur.

Fyrir rúmu ári bað hann mig um smá viðvik. Þegar ég kom til hans og hafði lokið erindinu gaf hann mér slípaða hvaltönn að skilnaði. Mér þykir vænt um þessa gjöf. Hún er mér tákn um áratuga vinsemd þessa ógleymanlega manns. Ég kveð Agnar Guðmundsson með þakklæti og virðingu og sendi Júlla, Gunnu, Ellu og Sidda innilegar samúðarkveðjur.

Kjartan Gunnar Kjartansson.

Látinn er í hárri elli atorkumaðurinn Agnar Guðmundsson. Hann var heilsuhraustur og þróttmikill alla sína ævi, en síðustu árin fór heilsu hans að hraka og lést hann á heimili Guðrúnar dóttur sinnar 31. janúar síðastliðinn. Hann var í faðmi fjölskyldunnar til síðustu stundar, umvafinn þremur kynslóðum sem önnuðust hann af mikilli umhyggju og natni. Agnar mat samveruna við fjölskylduna mikils. Hann naut þess að fá eitt yngsta barnabarnabarnið í fangið og sátu þau og skemmtu sér við að ýta á nef hvort annars.

Agnar fæddist í Danmörku og bjó þar til átta ára aldurs, en þá flutti hann til Íslands ásamt foreldrum sðnum og systkinum. Agnar var elstur sex systkina og foreldrar hans voru Júlíus Guðmundsson kaupmaður og Elín Stephensen, dóttir Magnúsar Stephensens landshöfðingja. Agnar var stór maður vexti, kröftugur og glæsilegur og íþróttamaður góður. Hann var þrekmaður til göngu, mikill sundmaður og hafði unnið til margra verðlauna á yngri árum.

Eiginkona Agnars var Birna Petersen og eignuðust þau fimm börn. Elst barnanna er Guðrún, sem ég kynntist þegar þau fluttu í hverfið. Við urðum fljótt bestu vinkonur og heimagangar hvor hjá annarri. Það var alltaf spennandi að koma í Skólastrætið fyrir mig einbirnið og taka þátt í ærlafullum leik systkinanna. Mínar bestu stundir voru þegar slagsmál þeirra systkina voru í uppsiglingu og fylgdist ég með af mikilli eftirvæntingu meðan móðirin af sinni einskærru rósemi reyndi að miðla málum og sætta. Í Skólastrætinu bjuggu að auki amma Guðrúnar og tvær móðursystur með sínar fjölskyldur svo þarna var alltaf fjörugt og nóg um að vera.

Agnar var góður og skemmtilegur heimilisfaðir og leit ég mikið upp til hans. Hann var góður sögumaður og hafði mikla kímnigáfu. Hann hafði siglt um heimsins höf og lent í mörgum háskalegum ævintýrum á stríðsárunum. Nokkrum dögum fyrir andlátið sagði hann okkur frá svaðilförum með togaranum Arnbirni hersi en skipið varð fyrir sprengjuárás við Englandsstrendur í stríðinu. Agnar var einnig mikill áhugamaður um mat og matargerð og smakkaði ég oft á ýmsu framandi þar á bæ. Ef ég sýndi á mér einhvern bilbug þá sagði Agnar ósköp rólegur: "Ætlarðu ekki að klára þetta Gústa mín?" og dró mig þá að landi eins og sagt er. Mér þótti sérstaklega vinalegt að vera kölluð Gústa í Skólastrætinu en Agnar og Birna voru eina fólkið sem gáfu mér það gælunafn.

Með Agnari er gengin litrík hetja úr miðbænum sem eins og fleiri af þessari kynslóð setti svip sinn á bæinn í áratugi. Ég er mjög þakklát fyrir þær stundir sem ég átti með Agnari og vil að leiðarlokum þakka innilega vináttu og trygglyndi.

Elsku Gunna og fjölskylda, við mæðgur sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Agnars Guðmundssonar.

Ágústa G. Sigfúsdóttir.

Margrét Guðrún Ormslev.