Janica Kostelic frá Króatíu fagnar innilega sigri sínum í alpatvíkeppni vetrarólympíuleikanna í gærkvöld.
Janica Kostelic frá Króatíu fagnar innilega sigri sínum í alpatvíkeppni vetrarólympíuleikanna í gærkvöld.
DAGNÝ Linda Kristjánsdóttir frá Akureyri náði ekki að ljúka alpatvíkeppni kvenna á vetrarólympíuleikunum í Salt Lake City í gærkvöld. Hún stóð sig ágætlega í sviginu, sem var á undan, og endaði þar í 24.

DAGNÝ Linda Kristjánsdóttir frá Akureyri náði ekki að ljúka alpatvíkeppni kvenna á vetrarólympíuleikunum í Salt Lake City í gærkvöld. Hún stóð sig ágætlega í sviginu, sem var á undan, og endaði þar í 24. sæti af þeim 28 keppendum sem luku báðum ferðum en 31 kona hóf keppnina í gær. Dagný Linda féll í bruninu og var þar með úr leik. Hún verður á ferðinni í þriðja sinn í Salt Lake City á sunnudag þegar hún keppir í risasvigi en aðrir Íslendingar hefja ekki keppni á leikunum fyrr en á miðvikudaginn.

Það var Janica Kostelic frá Króatíu sem sigraði í alpatvíkeppninni. Hún náði góðri forystu í sviginu og þriðja sæti í bruninu tryggði henni sigur samanlagt. Renate Götschl frá Austurríki varð í öðru sæti og Martina Ertl frá Þýskalandi hlaut bronsverðlaunin.

Johann Mühlegg frá Spáni krækti í sín önnur gullverðlaun á leikunum í gærkvöld þegar hann sigraði í 10 kílómetra göngu karla. Mühlegg náði 13,2 sekúndna forystu í fyrri hluta göngunnar en þá var gengið með hefðbundinni aðferð. Í seinni hlutanum voru keppendur ræstir samkvæmt árangri í þeim fyrri, Mühlegg fór 13,2 sekúndum á undan næsta manni af stað og var ekki í vandræðum með að sigra, var með 50 sekúndna forystu á tímabili og að lokum skildu 28,5 sekúndur hann frá næstu mönnum.

Mühlegg er Þjóðverji en gerðist spænskur ríkisborgari fyrir þremur árum og hefur á þessum leikum tvöfaldað verðlaunatölu Spánar á vetrarólympíuleikum frá upphafi.

"Ég vann þessi verðlaun fyrir Spán, sem er nú mitt heimaland, og ég mun ekki snúa aftur til Þýskalands," sagði Mühlegg, sem gaf sér tíma á endasprettinum til að beygja sig eftir spænska fánanum og veifa honum meðan hann renndi sér yfir marklínuna.

Við lá að barátta tveggja Norðmanna um annað sætið skyggði á sigur þýska Spánverjans. Frode Estil virtist vera búinn að tryggja sér silfrið þegar landi hans, Thomas Alsgaard, kastaði sér fram á marklínunni. Í ljós kom að þeir fengu nákvæmlega sama tíma og hrepptu því báðir silfurverðlaunin.