19. febrúar 2002 | Innlendar fréttir | 375 orð | 1 mynd

51 árs maður myrtur með barefli á leið heim úr vinnu sinni

Maður handtekinn grunaður um morðið

Fyrirsát talin ólíkleg

Nákvæm rannsókn á vettvangi fór fram í gær á Víðimelnum þar sem leitað var ummerkja. Einnig var leitað eftir upplýsingum hjá íbúum við Víðimel.
Nákvæm rannsókn á vettvangi fór fram í gær á Víðimelnum þar sem leitað var ummerkja. Einnig var leitað eftir upplýsingum hjá íbúum við Víðimel.
RÚMLEGA fimmtugur karlmaður var myrtur á leið heim úr vinnu sinni aðfaranótt mánudags á Víðimel í Reykjavík.
RÚMLEGA fimmtugur karlmaður var myrtur á leið heim úr vinnu sinni aðfaranótt mánudags á Víðimel í Reykjavík. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Morgunblaðsins handtók lögreglan í gærkvöldi mann sem grunaður er um verknaðinn og var hann yfirheyrður fram á nótt. Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, vildi ekki staðfesta þetta en sagði að unnið væri af krafti að rannsókn málsins.

Atburðurinn uppgötvaðist kl. 5.46 í gærmorgun, þegar vegfarandi kom að hinum látna og lét lögreglu vita. Hinn látni var með mikla áverka á höfði eftir barefli, að því er talið er, en morðvopnið er ófundið.

Maðurinn vann vaktavinnu og var samferða vinnufélögum sínum í bíl heim á leið. Honum var hleypt út á Melatorgi um kl. 1.15 eftir miðnætti á sunnudagskvöld og var hann vanur að ganga þaðan heim til sín vestur í bæ. Lögregla telur ljóst að hann hafi hitt einhverja á leiðinni, sem réðust á hann með fyrrgreindum afleiðingum.

Lögreglan getur ekkert fullyrt um morðvopnið en segir ljóst að um einhvers konar barefli hafi verið að ræða. Á hinum látna voru höggáverkar en krufning á eftir að fara fram.

Lögreglan telur ekki útilokað að hinn látni hafi verið rændur, þar sem veski hans fannst á vettvangi, nánast peningalaust.

Hörður segir að tilviljun virðist hafa ráðið því að maðurinn varð fyrir árásinni. Ekki sé vitað til þess að hann hafi átt sér nokkra óvini. Þá sé ólíklegt að árásarmennirnir eða -maðurinn hafi setið fyrir vegfaranda á þessum stað í ljósi þess að um fáfarna götu er að ræða á þessum tíma nætur. Allt að 20 lögreglumenn vinna að rannsókn málsins, þar af lögreglumenn úr tæknideild lögreglunnar og menn úr ofbeldisbrotadeild lögreglunnar. Vettvangur glæpsins var girtur af í gær fram til kvölds á meðan vettvangsrannsóknir fóru fram og leitað var að ummerkjum. Víðimel var lokað við Hofsvallagötu og Furumel. Lögreglan fór í hús á Víðimelnum og kannaði hvort fólk hefði orðið vart við nokkuð óeðlilegt þá um nóttina, en þrátt fyrir að íbúar hafi verið fúsir til að aðstoða gátu þeir ekki varpað frekara ljósi á atburði.

Hörður Jóhannesson vill ekki fara nánar út í aðgerðir lögreglunnar en hvetur þá sem geta borið um mannaferðir á og við Víðimel á tímabilinu frá kl. 1.15 til 5.46 í gærmorgun, að gefa sig fram við lögregluna.

Ekki er unnt að birta nafn hins látna að svo stöddu.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.