Hallgrímur Kristinsson
Hallgrímur Kristinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1882 Fyrsta kaupfélagið innan samvinnuhreyfingarinnar, Kaupfélag Þingeyinga, stofnað að Þverá í Laxárdal 20. febrúar að frumkvæði Jakobs Hálfdánarsonar á Grímsstöðum og Benedikts Jónssonar á Auðnum.
1882 Fyrsta kaupfélagið innan samvinnuhreyfingarinnar, Kaupfélag Þingeyinga, stofnað að Þverá í Laxárdal 20. febrúar að frumkvæði Jakobs Hálfdánarsonar á Grímsstöðum og Benedikts Jónssonar á Auðnum. 1902 Tuttugu ára afmælis Kaupfélags Þingeyinga minnst með stofnun ,,Sambandskaupfélags Þingeyinga" að Ystafelli í Köldukinn 20. febrúar, með aðild KÞ, Kaupfélags N-Þingeyinga og Kaupfélags Svalbarðseyrar. Meðal fundarmanna eru Pétur Jónsson á Gautlöndum, Sigurður Jónsson á Ystafelli og Benedikt á Auðnum. Miðað er við þennan fund sem upphaf SÍS. 1907 Þrjú kaupfélög utan Þingeyjarsýslna ganga til liðs við ,,sambandskaupfélagið" og nafninu breytt í ,,Sambandskaupfélag Íslands". Meðal þeirra er Kaupfélag Eyfirðinga með Hallgrím Kristinsson kaupfélagsstjóra í broddi fylkingar. Hann hefur þá átt frumkvæði að því ári áður að taka upp svokallað Rochdale-skipulag hér á landi, sem m.a. gekk út á það að skipta út tekjuafgangi um hver áramót til bænda í samræmi við innkaup hvers og eins. 1910 Kaupfélögum fjölgar og nafni félagsskaparins breytt í ,,Samband íslenskra samvinnufélaga". Helsta hlutverkið er útbreiðslu- og fræðslustarfsemi á þessum árum.

1915 Fyrsta skrifstofa sambandsins opnuð í Kaupmannahöfn og forstöðumaður hennar er Hallgrímur Kristinsson. Tveimur árum síðar er hann orðinn fyrsti forstjóri sambandsins, sem nú er komið meira í beina sölustarfsemi fyrir bændur. 1916 SÍS opnar fyrstu skrifstofuna á Íslandi í höfuðstöðvum KEA á Akureyri. Framsóknarflokkurinn stofnaður og Hallgrímur og Sigurður á Ystafelli standa fyrir kennslu á Akureyri í samvinnufræðum, vísir kominn að Samvinnuskólanum. 1917 Heildverslun hefst og skrifstofur eru opnaðar við Amtmannsstíg í Reykjavík og New York. Samkeppni við kaupmenn í landinu harðnar. 1918 Sambandið festir kaup á lóð við Sölvhólsgötu og reisir þar sitt fyrsta skrifstofuhús. Samvinnuskólinn er stofnaður og rekinn fyrstu áratugina við Sölvhólsgötu. Fyrsti skólastjóri er Jónas frá Hriflu. 1921 Kaupfélögin orðin 39 að tölu og hefur fjölgað þrátt fyrir erfiðan rekstur. Vendipunktur er setning svonefndra Samvinnulaga á Alþingi sem treystir grundvöll félagsverslunar í landinu. 1923 Hallgrímur fellur frá, aðeins 46 ára að aldri, og bróðir hans, Sigurður, tekur við af honum sem forstjóri SÍS. Af Sigurði sem kaupfélagsstjóra KEA tekur Vilhjálmur Þór, síðar forstjóri SÍS, þá aðeins 23 ára að aldri. Að frumkvæði Vilhjálms hefst iðnframleiðsla á vegum KEA á Akureyri í gærurotun. 1930 KEA reisir aðalskrifstofu- og verslunarbyggingu við Hafnarstræti á Akureyri og kaupir ullarverksmiðjuna Gefjun, síðar kaffibætisgerðina Freyju, sápugerðina Sjöfn og verksmiðju Iðunnar. Sambandið tekur þátt í þessum rekstri með KEA þrátt fyrir mikla skuldasöfnun í kreppunni. 1934 Afurðasölulögin sett á Alþingi sem ætlað er að tryggja bændum sama verð fyrir sínar afurðir án tillits til búsetu í landinu. Höfðatölureglan svokallaða er komin á sem gerir kaupfélögunum kleift að flytja inn í hlutfalli við fjölda félagsmanna og heimilismanna þeirra. Innflutnings- og gjaldeyrisnefnd úthlutar leyfum til innflutnings. Reglan er við lýði til ársins 1943 og kaupfélögum fjölgar stöðugt á þeim tíma. 1937 Inneignir aðildarfélaga SÍS orðnar meiri en skuldirnar og afkoman aldrei verið betri. Til ársins 1938 fjölgaði félagsmönnum um 67% og munar þar mestu um inngöngu KRON í Sambandið. 1946 Vilhjálmur Þór tekur við forstjórastarfi SÍS af Sigurði Kristinssyni. Talið að áherslur hafi breyst mikið með tilkomu Vilhjálms. Véladeildin er stofnuð sem og Samvinnutryggingar og SÍS tekur þátt í stofnun Olíufélagsins hf. Kaupskipaútgerð er hafin og sérstök skipadeild verður til sex árum síðar. Ýmis önnur fyrirtæki keypt. 1949 Iðnaðardeildin er stofnuð og SÍS gerist aðili að Norræna samvinnusambandinu. Dráttarvélar hf. taka til starfa. 1951 SÍS stofnar fisksölufyrirtæki í Bandaríkjunum, Iceland Product, sem er í fyrstu hluti af útflutningsdeild SÍS í New York. Upp frá því eykst þátttaka SÍS í rekstri frystihúsa víða um land. Vinnumálasambandið er stofnað. 1952 Fimmtugsafmælis SÍS minnst m.a. með miðstjórnarfundi Alþjóðasamvinnusambandsins í Reykjavík. Samvinnuhreyfingin er sú fjölmennasta á landinu með 31 þúsund félagsmenn, eða 21% þjóðarinnar, í 56 aðildarfélögum. 1954 Íslenskir aðalverktakar stofnaðir með fjórðungshlut SÍS í gegnum verktakafyrirtækið Regin, sem síðar varð eignarhaldsfélag. 1955 Vilhjálmur Þór hættir forstjórastarfi í upphafi árs og verður bankastjóri Landsbankans. Við af honum tekur forstöðumaður Samvinnutrygginga, Erlendur Einarsson, þá 33 ára. Starfsmenn SÍS eru í kringum 800. Starfsemi Samvinnuskólans flyst að Bifröst í Borgarfirði. 1956 SÍS og Olíufélagið sameinast um kaup á olíuskipinu Hamrafelli til landsins, sem er stærsta skip í eigu Íslendinga til þessa. 1957 Sjávarafurðadeild Sambandsins opnar fyrstu fiskverksmiðju Iceland Seafood í Bandaríkjunum. 1959 Osta- og smjörsalan stofnuð í Reykjavík að frumkvæði SÍS. Viðreisnarstjórnin tekur við völdum í landinu og efnahagsaðgerðir hennar hafa slæm áhrif á SÍS. 1963 Samvinnubankinn stofnaður þar sem SÍS er stór eigandi. Verður fljótt stærsti einkabankinn í landinu. 1969 Stórbruni kemur upp í verksmiðjum SÍS á Akureyri í ársbyrjun. Nærri 500 manns missa atvinnu sína vegna brunans og fjárhagslegt tjón mikið. 1973 Bygging stórhýsis við Holtagarða hefst í Reykjavík. Húsið er tekið í notkun 1977 og þar er stórmarkaðurinn Mikligarður m.a. til húsa. 1975 Iceland Seafood í Bandaríkjunum lendir í miklum rekstrarerfiðleikum og er nær gjaldþrota. Guðjón B. Ólafsson, þáverandi framkvæmdastjóri sjávarútvegsdeildar SÍS, fer vestur og tekur stjórn fyrirtækisins að sér. 1982 Aldarafmælis Kaupfélags Þingeyinga minnst og 80 ára afmælis SÍS með hátíðarsamkomu á Laugum í júní. Kaupfélögin eru nú 44 og félagsmenn um 42 þúsund. 1986 Guðjón B. Ólafsson tekur í ársbyrjun við af Erlendi sem forstjóri. Valur Arnþórsson, kaupfélagsstjóri KEA og stjórnarformaður SÍS, er orðaður við starfið en gefur að lokum ekki kost á sér. Guðjón innleiðir nýjan stjórnunarstíl sem sagður er frá tíð hans sem yfirmaður Iceland Seafood. Velta Sambandsins er nú orðin meiri en hjá ríkissjóði. 1987 Sambandið gerir tilboð í Útvegsbankann með það fyrir augum að sameina hann Samvinnubankanum. Tilboðinu er ekki tekið en um málið verða deilur á pólitískum vettvangi. 1988 Samvinnuskólinn á Bifröst gerður að sjálfseignarstofnun og honum gefið nafnið Samvinnuháskólinn. 1989 Sambandið flytur úr Sölvhólsgötu í endurbætta byggingu við Kirkjusand, nú höfuðstöðvar Íslandsbanka. Á aðalfundi kemur í ljós 1.200 milljóna halli árið áður og viðlíka halli hjá kaupfélögunum. Í september kaupir Landsbankinn 52% hlut í Samvinnubankanum og ári síðar hafa bankarnir sameinast að fullu undir nafni þess fyrrnefnda. Hugmyndir koma fram um breytt skipulag á rekstrinum en það mætir andstöðu sumra deilda og hætt er við áformin. 1990 Hart deilt á aðalfundi Sambandsins í júní þar sem forstjórinn segir m.a. að ræðumenn hafi flestir engan skilning á vanda sambandsins. Ummælin falla í grýttan jarðveg fundarmanna.Ákveðið er að skipta Sambandinu upp í sjálfstæðar deildir og stofna hlutafélög um þær. Þetta eru sjávarafurðadeildin, skipadeildin, verslunardeildin, bifreiða- og véladeildin Jötunn, búvörudeildin og fjármáladeildin. Mikligarður og KRON sameinast í eitt félag. Versnandi skuldastaða fer að koma betur í ljós. 1991 Mikligarður opnar nokkrar verslanir undir heitinu 11-11 og rekur fleiri matvöruverslanir auk stórmarkaðarins við Holtagarða. 1992 Rannsóknarnefnd sett á laggirnar á vegum Landsbankans til að kanna eignastöðu Sambandsins. Hrikaleg skuldastaða kemur í ljós, þ.ám. 1.300 milljóna skuldir í útlöndum, og ákveðið er að bankinn yfirtaki eignir SÍS með stofnun eignarhaldsfélagsins Hamla. Bankinn afskrifar 750 milljónir króna af skuldum SÍS. Öllum starfsmönnum er sagt upp, eða fimmtán talsins, og þeirra á meðal Guðjóni B. Ólafssyni, og Sambandið hættir rekstri sem sjálfsætt fyrirtæki og verður fyrst og fremst eignarhaldsfélag.

1993 Mikligarður er lýstur gjaldþrota og nema samþykktar kröfur um 1.200 milljónum króna. Íslenskur skinnaiðnaður á Akureyri fer um líkt leyti í gjaldþrot. 1998 Skrifstofa Sambandsins við Holtagarða í Reykjavík er lögð niður og aðstaðan flyst norður í höfuðstöðvar KEA á Akureyri. 2002 Samband íslenskra samvinnufélaga 100 ára hinn 20. febrúar. Stjórn þess undirritar samkomulag við Viðskiptaháskólann í Bifröst um að kanna á hvaða sviðum samvinnufélagsformið hentar á Íslandi á nýrri öld og einnig er samið um söguritun sambandsins.