21. febrúar 2002 | Viðskiptablað | 664 orð

Fylgst með eggjakörfunni

"Mesta öryggið felst í því að leggja töluverðan hluta af eggjum þínum í eina körfu og fylgjast vel með körfunni," segi

Í gegnum tíðina hefur verið hægt að skipta fjárfestum almennt í tvo hópa, þá sem kaupa verðbréf til að eiga til lengri tíma og aðra sem kaupa verðbréf með það í huga að geta selt þau aftur skömmu síðar með hagnaði.
Í gegnum tíðina hefur verið hægt að skipta fjárfestum almennt í tvo hópa, þá sem kaupa verðbréf til að eiga til lengri tíma og aðra sem kaupa verðbréf með það í huga að geta selt þau aftur skömmu síðar með hagnaði. Hópurinn sem fjárfestir til að eiga bréf til lengri tíma er meira ríkjandi meðal fjárfesta í dag, enda hefur sú fjárfestingarstefna borið góðan árangur undanfarna áratugi. Hlutabréfamarkaðir hafa verið gjöfulir og þeir sem hafa átt safn bréfa í stórum og stöndugum fyrirtækjum hafa séð fjárfestingar sínar margfaldast í verðgildi. Warren Buffet, frægasti fjárfestir heimsins í dag, er þekktastur í þessum hópi. Almennt hugarfar hvað varðar fjárfestingarstefnur var hins vegar allt annað árið 1935, þegar bókin The Battle for Investment Survival var útgefin (reyndar sama ár og Security Analysis eftir Graham, sem Buffet byggði fjárfestingarspeki sína að stórum hluta á). Mögru árin frá 1929 til 1933, þegar verðgildi Dow Jones-hlutabréfavísitölunnar féll tæplega 90%, fékk margan fjárfestinn til að líta svo á að aðeins væri hægt að hagnast á hlutabréfum með skammtímafjárfestingu í huga, enda gátu afar fáir sem keypt höfðu hlutabréf til að eiga til lengri tíma státað af þolanlegri ávöxtun á því tímabili. Höfundur bókarinnar, Gerald M. Loeb, var í þeim hópi sem þá var ríkjandi meðal fjárfesta. Fjárfestingarspeki hans og Warrens Buffets átti það sameiginlegt að telja hlutabréf vera helstu leiðina til að hagnast mikið og að ekki ætti að leggja áherslu á dreifingu safns heldur að kaupa aðeins hlutabréf í stórum og traustum fyrirtækjum á hagstæðu verði. Aðferðafræðin sem Loeb beitti er þó gjörólík stefnu Buffets, og þess virði að skoða nánar, sérstaklega í ljósi þess að Buffet sjálfur hefur nýlega varað við að ávöxtun hlutabréfa veiti líklegast slakari ávöxtun næstu árin en flestir fjárfestar gera sér vonir um. Að mati Loebs eru allir þeir einstaklingar sem þéna umfram það sem þeir eyða sjálfkrafa fjárfestar, hvort sem þeir gera sér grein fyrir því eða ekki. Markmið fjárfestinga í hnotskurn er að varðveita þær umframtekjur til væntanlegra nota síðar. Loeb bendir á hversu verðbólga hefur neikvæð áhrif á gildi fjármagns og því þarf stöðugt að leitast við að ávaxta fé umfram verðbólgu hverju sinni án of mikillar áhættu. Í því felst barátta hvers fjárfestis. Í hans tíð voru verðtryggð skuldabréf óþekkt fyrirbrigði en í dag hefði hann sjálfsagt verið mikill aðdáandi slíkra fjárfestingarleiða.

Ólíkt þeirri goðsögn sem í dag er ríkjandi, að langtímafjárfestar eigi að hafa meginhluta fjárfestinga sinna í hlutabréfum, leggur Loeb mikla áherslu á að fara varlega í þeim efnum og eiga ávallt talsvert magn af lausu fé á hliðarlínunum. Hann mælir með að þeir sem eru að hefja hlutabréfafjárfestingar ættu aðeins að fjárfesta um 10% af eigin fé í hlutabréfum og læra af þeirri reynslu, góðri eða slæmri, sem hlýst af þeirri fjárfestingu. Um leið og fjárfestingin fer að skila augljósu tapi, t.d. 10-15% neikvæðri ávöxtun, skal selja bréfin og læra af mistökunum. Ef þau hækka í verði skal halda þeim fram að þeim tímapunkti sem augljós merki fara að koma fram um að frekari hækkanir séu ólíklegar til styttri tíma. Sá tímapunktur er ekki mældur í árum heldur aðeins vikum eða mánuðum.

Með því að hafa alltaf dágóðan hluta af eignasafni fjárfestis í skammtímabréfum er áhættan á tapi lítil. Loeb kemur einnig með sterk rök fyrir því að slík stefna geri fjárfesti það auðveldara að líta skynsamlega á hlutabréfafjárfestingar sínar. Hann bendir á að það stoði lítt að fela vanþekkingu á hlutabréfafjárfestingum með dreifingu á bréfum í eignasafni, því ef hlutabréfamarkaðir falla almennt er áhættudreifing safns léleg vörn gegn tapi. Með því að hafa aðeins hluta af eign sinni í hlutabréfum er auðveldara að verjast mannlegu eðli sem hefur neikvæð áhrif á rökrétta ákvörðunartöku, m.a. að selja með tapi, þó svo að öll skynsemi bendi til þess að upphafleg fjárfestingarákvörðun hafi verið óskynsamleg. Aðeins þannig getur fjárfestir leyft sér að einbeita sér að þeim fáu fjárfestingum sem hann telur að veiti mestan hagnað. Þetta er fjárfestingarspeki sem hefur e.t.v. lítið fylgi í dag, en er hugsanlega vanmetin.

mixa@sph.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.