Jón Torfi Gylfason
Jón Torfi Gylfason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einkennin, segja Reynir Tómas Geirsson og Jón Torfi Gylfason, geta verið vægir eða slæmir verkir í grindarholi og baki.

TALIÐ er að um 1000 íslenskar konur séu með sjúkdóm, sem veldur slæmum blæðingaverkjum, blæðingatruflunum og minni frjósemi. Sjúkdómurinn nefnist legslímuflakk ("endometriosis" á erlendum málum). Hann lýsir sér í blóðhlaupnum vefjaskemmdum í grindarholi og á eggjastokkum þar sem slímhúð eins og sú sem þekur legið að innan festist á lífhimnuna eða á eggjastokkana ("fer á flakk"). Þetta veldur blæðingum inn í þessa vefi og þar verða bólgur og vefjaskemmdir. Einkennin geta verið allt frá vægum og upp í mjög slæma verki í grindarholi og baki.

Við tíðablæðingar berast örlitlir slímhúðarflákar upp í gegnum eggjaleiðarana og inn í kviðarholið hjá flestöllum konum. Yfirleitt hreinsast þeir burt af lífhimnunni, en í sumum konum ná þeir bólfestu og vaxa. Blóðfylltar blöðrur geta myndast á eggjastokkunum og þegar blætt hefur inn í kviðarholið myndast bólgur og samgróningar. Þetta truflar blæðingar og egglos. Erfðir eða umhverfisþættir ráða miklu um þetta.

Algengt er að konur, sem eru með legslímuflakk, viti ekki sjálfar mikið um sjúkdóminn og jafnvel ekki að þær séu með hann. Erfitt er að útskýra tilurð hans og framvindu, en áður voru veikindi þessara kvenna oft skýrð með því að þær væru með ,,blöðrur á eggjastokkunum". Samfara framförum í læknavísindum og með aukinni þekkingu kvenna á eigin líkama, greinist sjúkdómurinn nú betur en áður. Konur, sem hafa þjáðst af miklum blæðingaverkjum, hafa oft reynst vera með legslímuflakk. Við læknisskoðun má finna merki um sjúkdóminn, en eina örugga greiningin fæst með kviðarholsspeglun eða opinni skurðaðgerð. Ómskoðun kemur að takmörkuðu gagni, og þá helst til að greina blóðfylltar blöðrur á eggjastokkum.

Það skiptir máli að konur séu meðvitaðar um tilvist sjúkdómsins í fjölskyldu sinni. Ef konur eiga systur, mæður eða systkinadætur sem þjást af legslímuflakki aukast líkur þeirra sjálfra á að fá hann. Rannsóknir, sem gerðar hafa verið á Íslandi undanfarin 6-7 ár, hafa sýnt þetta og vakið athygli á erlendum vettvangi. Konur með legslímuflakk eru talsvert skyldari heldur en tilviljunarkennt úrtak kvenna í þjóðfélaginu. Arfgengi getur líka verið gegnum karllegg frá föðurömmu til sonardóttur. Það er þess vegna líklegt að hjá konum með legslímuflakk hafi eitt eða fleiri gen breyst, og að slíkar stökkbreytingar auki hættuna á að sjúkdómurinn geri vart við sig eða versni. Verið er að leita að og skilgreina áhrif þessara erfðavísa í frumum úr legslímhúðinni og í blóðfrumum kvenna með legslímuflakk.

Á síðasta ári hófst nýtt átak í rannsóknum á þessum sjúkdómi hér á Íslandi. Óvenjugóðar forsendur eru til slíkra rannsókna hérlendis. Við fáum upplýsingar frá sjúkrahúsum landsins um hvaða konur hafa greinst með sjúkdóminn. Þessum konum er síðan sent bréf og leitað eftir samþykki þeirra til þátttöku. Allt er þetta gert samkvæmt reglum vísindasiðanefndar og Persónuverndar. Konur hafa hingað til brugðist vel við beiðni okkar um þátttöku. Rannsóknin hófst 1994 með samstarfi kvennadeildar Landspítalans og Oxfordháskóla í Bretlandi. Frá árinu 1997 hefur meginsamvinnan verið við Íslenska erfðagreiningu. Hin mikla tækniaðstaða, sem þar er til staðar, skapar góð skilyrði fyrir fjölþættar rannsóknir á sjúkdómnum. Sú þekking sem þannig fæst getur leitt til þess að orsakir sjúkdómsins finnist, nýjar og einfaldari greiningaraðferðir verði þróaðar (t.d. með einni blóðprufu) og ný meðferðarúrræði verði til. Slíkt yrði ómetanlegt fyrir hundruð þúsunda kvenna um allan heim. Það er von okkar að konur sem fá sent bréf frá okkur vegna þessarar rannsóknar leggi okkur lið. Framlag íslenskra kvenna til rannsóknar sem þessarar er ákaflega mikilvægt.

Reynir Tómas er forstöðulæknir á Kvennadeild Landspítala og Jón Torfi er lífefnafræðingur og læknanemi.